
Núðlur, núðlur,núðlur! Við elskum núðlur og ég gæti alveg vanist því að fara reglulega til Asíu og borða MIKIÐ af slíkum réttum, hreinlega fæ ekki nóg!

Ég rakst á þessa hugmynd með að setja majónessósu yfir núðlur á netinu, eitthvað sem mér hefði aldrei dottið í hug og upp frá því varð þessi geggjaða uppskrift til!

Stökkar „Street Food“ núðlur
Fyrir 4-6 manns
Núðlur
- 300 g medium eggjanúðlur
- 6 sneiðar beikon
- Um 500 g kjúklingalærakjöt
- 5 vorlaukar (+ meira til að setja ofan á)
- 3 hvítlauksrif
- Ólífuolía
- 1 msk. sesamolía
- 2 msk. soyasósa
- Salt, pipar, hvítlauksduft, paprikuduft
Toppur
- Sesamfræ
- Jalapeno niðurskorið eftir smekk
- Hellmann‘s Garlic & Jalapeno Street Food sósa
- Sjóðið núðlurnar í 4 mínútur, hellið vökvanum af og geymið til hliðar.
- Steikið beikon á pönnu og þerrið á pappír og geymið, skerið niður kjúklingakjötið og steikið á sömu pönnu án þess að þrífa hana á milli, bætið við smá ólífuolíu og kryddið til með salti, pipar, hvítlauksdufti og paprikudufti.
- Takið nú kjúklingakjötið til hliðar, bætið smá ólífuolíu á pönnuna og steikið vorlauk og rífið hvítlauksrifin á pönnuna. Steikið stutta stund og bætið þá núðlum, kjúklingi og söxuðu beikoni aftur á pönnuna.
- Steikið við meðalháan hita í nokkrar mínútur eða þar til núðlurnar fara aðeins að gyllast. Bætið sesamolíu og soyasósu saman við og veltið reglulega til þess að núðlurnar festist ekki við pönnuna.
- Njótið með vel af Garlic & Jalapeno Street Food sósu, meiri vorlauk og sesamfræjum.

Þessi réttur var svo brjálæðislega góður að það var hver einasta arða hreinsuð upp af pönnunni!
