Krít & Santorini⌑ Samstarf ⌑
Santorini Greece

Í byrjun júní tókum við elsta dóttir mín skyndiákvörðun og stukkum til Krítar! Við höfðum ekki áður komið til Grikklands og finnst gaman að skoða nýja áfangastaði. Krít er dásamleg lítil eyja þar sem manni líður eins og maður sé komin nokkra áratugi aftur í tímann. Þar er allt rólegt, notalegt og persónulegt. Mikið lagt upp úr litlum íbúðarhótelum og góðri staðsetningu (þó stærri „resort“ sé að finna víða líka) og Krítverjar ekkert að æða inn í nútímann.

Við gátum valið á milli þess að fara á 3ja stjörnu lítið íbúðarhótel miðsvæðis á Platanias eða 5 stjörnu „all inclusive“ hótel aðeins fyrir utan Platanias. Við ákváðum að þessu sinni að velja staðsetninguna þar sem okkur langaði að geta prófað mismunandi veitingastaði, búið alveg á ströndinni og kynnst grískri menningu eins og hún gerist best.

Við fórum einnig í nokkrar skoðunarferðir svo það var ekki mikið verið að slaka á og sóla sig heldur upplifðum við ýmiss konar ævintýri í staðinn. Ég elska að skoða mig um á nýjum stöðum og er greinilega búin að smita börnin mín af því sama og það er einmitt það sem skilur eftir sig svo góðar minningar að mínu mati. Auðvitað er gott inn á milli að liggja bara og slaka á í sólbaði en best finnst mér að gera smá af öllu.

Við fórum í dagsferð á Elafonissi ströndina, til Santorini og í gönguferð niður Samaria gljúfrið. Einnig kíktum við inn í Chania eftir hádegi einn daginn svo þessi færsla vonandi gefur ykkur smá innsýn í ferðlag á þessum slóðum og hvetur ykkur til að skella ykkur til Krítar einn daginn!

Hótelið okkar

Crete Platanias

Við gistum á litlu krúttlegu íbúðarhóteli sem heitir Erato Beach og er staðsett miðsvæðis á Platanias ströndinni. Herbergin voru rúmgóð og snyrtileg, sundlaugin góð og bekkirnir í garðinum góðir. Það voru hins vegar ekki margir bekkir en þeir sem vakna snemma þurfa ekki að hafa áhyggjur af því. Við prófuðum reyndar bæði bekki í garðinum og á ströndinni (sem kostaði 4 evrur á dag stykkið) og komumst að því að okkur leið betur á ströndinni því þar var smá vindur sem gerði það að verkum að manni leið betur og stiknaði ekki eins úr hita.

Það er lítill sundlaugarbar og veitingastaður alveg neðst við ströndina, þar borðuðum við morgunmat á morgnana og pöntuðum drykki og snarl yfir daginn. Einnig var hægt að kaupa eldbakaðar pizzur og annað góðgæti í hádeginu.

Platanias ströndin

Hótelið var alveg á ströndinni. Ströndin var bæði með mjúkum sandi og litlum steinum, svona eftir því hvar maður fór niður að sjónum. Sjórinn var hins vegar mjög tær og þegar vindur var lítill sá maður alveg niður í botn.

Við elskuðum að liggja á bekkjunum niðri á strönd og fara svo reglulega aðeins í sjóinn til að kæla okkur. Ég tók líka skokk meðfram sjónum en það er hins vegar lúmskt erfitt að hlaupa svona í sandinum, hahaha.

Santorini

santorini

Við skelltum okkur í dagsferð til Santorini og það var ævintýri út af fyrir sig. Að standa allt í einu þarna á þessari mikið mynduðu eyju, innan um „The Domes“ með bláu þökin og þræða þröngar göturnar var virkilega skemmtilegt. Ferðalagið er hins vegar langt miðað við stoppið sjálft á eyjunni svo við mæðgur forgangsröðuðum tímanum þannig að við settumst ekki niður á veitingastaði heldur gripum okkur samlokur og snarl og gengum og skoðuðum okkur um eins mikið og við gátum þar til rútan fór á næsta stað því það var hreinlega ekki tími til að gera hvorutveggja.

Myndir segja meira en mörg orð og hér fyrir neðan finnið þið líka myndband frá þessum dásamlega ævintýradegi.

Ef ég færi aftur til Santorini þá myndi ég vilja gista þar í að minnsta kosti eina nótt, til þess að ná aðeins að setjast niður á huggulegum veitingastað eftir að allar rúturnar fara aftur í bátinn og vakna þar að morgni. Dagsferð er þó algjörlega þess virði en ég mæli þá með að eyða tímanum frekar í að skoða sig um og njóta þess að slaka á og borða góðan mat þegar komið er aftur til Krítar.

Ég tók skrilljón og þúsund myndir þennan dag enda eru það minningarnar í myndunum sem lifa og hlakka ég til að gera myndaalbúm eftir þessa ferð.

Santorini

Það er farið með rútu eldsnemma morguns inn í Rethymno og þaðan er siglt yfir með ferju í 3 klukkustundir hvora leið. Bátsferðin var samt bara mjög fín og við sváfum mestalla fyrri leiðina þar sem við höfðum vaknað mjög snemma. Á leiðinni heim nýtti ég svo tímann til að fara yfir allar myndir og endurupplifa daginn. Það eru um 1 milljón ferðamanna sem heimsækja Santorini árlega svo þið getið rétt ímyndað ykkur fjöldann. Maður þarf því bara að anda rólega í rúturöðinni og mannmergðinni og gefa sér tíma til að þræða allar þröngu göturnar þó svo það sé mikið af fólki. Við fórum bæði til Oia og Fira og mér persónulega fannst fallegra í Oia en þar eru „The Domes“ með bláu þökin og allt mikið hvítt og blátt í umhverfinu. Í Fira var engu að síður líka fallegt, við gengum þar allt upp og niður og útsýnið frá eyjunni er engu líkt.

Elafonissi ströndin

Elafonissi beach

Elafonissi ströndin er oft kölluð bleika ströndin. Keyrt er yfir fjallgarðinn til að komast þangað og þessi strönd er yndisleg. Ég ætla alveg að vera hreinskilin samt að hún er ekki eins bleik og myndirnar sýna, sandurinn var mismikið bleikur í flæðarmálinu og við gengum hana þvera og endilanga til að ná góðum myndum.

Elafonissi Beach

Sandurinn er hins vegar dásamlegur, svo mjúkur og góður og sjórinn túrkís blár og tær. Við leigðum kajak og fórum út á sjóinn og þetta var bara eins og í karabíska hafinu!

Á leiðinni á ströndina var stoppað í Agia Sofia hellinum og það var virkilega skemmtilegt. Vegirnir þarna í fjöllunum minna þó helst á Ólafsfjarðarmúlann í gamla daga og við lofthræddu mæðgur vorum alveg með í maganum á köflum, hahaha! Bílstjórarnir eru þó virkilega færir og alveg magnað hversu létt þeir fóru með að keyra þetta.

Dóttir mín tók þessa mynd af erni sem flaug rétt fyrir framan nefið á okkur í hellinum en þarna sjáið þið veginn! Þetta er sko tvístefna og rúturnar flauta bara fyrir hverja beygju svo þær þurfi (vonandi) ekki að mæta neinum, hahaha!

Við stoppuðum í hellinum á leiðinni á Elafonissi og síðan í litlum sætum bæ á heimleiðinni þar sem hægt var að kaupa hunang og aðrar vörur beint frá býli.

Þessi dúlla hefur staðið hunangsvaktina í fjöllunum síðan 1993 og keyptum við að sjálfsögðu af henni krukku!

Samaria gljúfrið

Samaria Gorge

Þeir sem eru fyrir útivist og göngur ættu ekki að láta þessa ferð framhjá sér fara. Við fórum með rútu lengst upp í fjöllin þar sem hún skildi okkur eftir við þjóðgarðinn til að ganga niður gljúfrið. Leiðin var um 19 km löng alveg niður á strönd, gljúfrið sjálft um 16 km. Byrjað er í 1200 m hæð og gengið alveg niður á strönd til að slaka á eftir bröltið. Það var mest bratt fyrstu 3 kílómetrana eða svo og síðan meira aflíðandi niður. Það má ekki vanmeta svona niðurgöngu því hún tekur alveg á líka! Leiðsögumaðurinn leggur af stað aðeins á eftir hópnum og sér um að smala þeim síðustu saman ef þurfa þykir í lokin. Annars er erfitt að villast þar sem gengið er á milli klettaveggja og hver og einn fer þessa göngu á sínum hraða.

Gangan var virkilega skemmtileg og vorum við mæðgur um 4,5 klukkustund niður á sólbekk á ströndinni, haha! Fólk var síðan að tínast á ströndina um það leyti og alveg áfram í nokkra klukkutíma. Við fengum okkur að borða, fórum í sjóinn og slökuðum á áður en farið var með ferju í næsta þorp þar sem rútan beið okkar, það eru nefnilega engir vegir að Agia Roumeli.

Það er dásamlegt að ganga á hlýrabol og stuttbuxum í svona fallegu umhverfi! Engu að síður var aðeins kalt klukkan 08:00 um morguninn efst í fjallinu svo við vorum í peysu/skyrtu utan yfir okkur og með smá föt í bakpokanum. Mikilvægt er að hafa drykki og vökva sig vel á leiðinni ásamt snarli. Stoppað var í morgunmat rétt áður en lagt var af stað í gönguna svo við vorum bara með ávexti og samloku með okkur, fengum okkur síðan að borða á veitingastað í Agia Roumeli. Við vorum báðar með Daylite bakpoka frá Osprey en slíkir eru fullkomnir í svona ferð þar sem ekki þarf of mikinn fatnað né mat.

Agia Roumeli er einn krúttlegasti bær sem ég hef komið til!

Hér fyrir ofan finnið þið myndband frá þessum frábæra degi!

Samaria

Þessi strönd sko! Eina sem við klikkuðum á var að hafa strandskó með í bakpokanum, við vorum með handklæði og sundföt en ströndin var með litlum steinum og það hefði verið geggjað að vera í skóm en við tipluðum þetta bara rólega í staðinn. Sandurinn var reyndar síðan svoooo heitur að þar hefðu skórnir líka komið sér vel, hahaha!

Chania

Chania Crete

Við kíktum inn í Chania borgina eftir hádegi einn dag. Gengum um gamla bæinn og versluðum síðan aðeins. Ég verð að segja að þessi „Old Town“ er einn sá fallegasti gamli bær sem ég hef heimsótt. Litadýrðin, þröngu göturnar og öll krúttheitin voru dásamleg.

Sjáið bara litadýrðina og fegurðina! Síðan fundum við Starbucks þarna í miðjunni á þessu öllu saman sem gladdi auðvitað okkar amerísku hjörtu, haha!

Við gengum út að vitanum við höfnina, Harpa keypti sér risa Hörpuskel hjá einum farandsalanum og síðan var aðeins farið að versla og endað á að fara út að borða.

Veitingastaðir á Krít

Við settum okkur markmið í upphafi ferðar að fara aldrei tvisvar á sama veitingastaðinn, heldur prófa alltaf eitthvað nýtt. Það tókst svona næstum því, haha!

Við fórum bæði út að borða í hádeginu og á kvöldin flesta daga. Harpa Karin elskaði Carbonara pastað á Oscar sem er veitingastaður nánast við hliðina á hótelinu okkar svo það fær alveg sér mynd hérna í færslunni. Enda var það eini veitingastaðurinn sem við fórum aftur á í kvöldverð en eftir gönguna í gljúfrinu komum við seint heim, hoppuðum í sturtu og gátum ekki hugsað okkur neitt annað en þetta góða pasta, haha!

Ég ætla síðan bara rétt að telja hér upp þá staði sem við prófuðum.

Sonio er skemmtilegur veitingastaður alveg við ströndina (allt þetta hvíta og bláa). Hann var líka rétt hjá hótelinu og þar prófuðum við pasta, hamborgara, Gyros, eftirrétti og fleira og allt var gott.

Við elskuðum að fara upp í hlíðina og sjá útsýnið og sólsetrið svo við prófuðum þrjá staði þar. Fyrst fórum við á Astrea og þar var mjög góður matur og flott útsýni. Næst prófuðum við Cosmos og fannst enn betri matur og útsýni þar. Síðan fórum við í drykk og snarl á Panorama og þar var einnig notalegt að sitja.

Eitt kvöldið fórum við í Mylos garden restaurant og sá staður var æðislegur, inn í garði með tjörn, blómum og ljósum um allt og baðherbergið í fullum blómaskrúða meira að segja! Maturinn var til fyrirmyndar og í eftirrétt kom ávaxtabakki á eldi!

Á Elafonissi fengum við okkur hádegismat á veitingastaðnum Panorama, sátum fremst úti með útsýni yfir alla ströndina og það var æði!

Eftir gönguna í Samaria leigðum við sólbekki niðri við strönd og nenntum ekki að labba aftur inn í bæinn á veitingastað og pöntuðum okkur pizzu á strandbarnum þar en hún var nú ekki upp á marga fiska þó þjónarnir hafi verið skemmtilegir, hahaha! Mæli því með að borða aðeins inn í þorpinu á einhverjum af veitingastöðunum sem þar eru.

Í Chania settumst við inn á veitingastað sem heitir Well of the Turk en það var búið að mæla mikið með honum. Þetta er bland af grískri, tyrkneskri og marokkóskri matargerð og var virkilega skemmtileg tilbreyting. Þar á móti var reyndar staður sem heitir Ginger sem við hefðum líka viljað prófa en það er víst ekki hægt að borða mörgum sinnum kvöldmat á sama kvöldinu.

Síðan pöntuðum við okkur einu sinni pizzu á hótelinu en þar eru þær bakaðar úti í pizzaofni og var hún mjög góð. Grikkirnir setja reyndar rosa mikinn ost á pizzur svo það má alveg segja þeim að róa sig aðeins með ostinn, haha!

Grikkirnir eru mikið að koma með litla eftirrétti og staup í boði hússins eftir máltíðir svo ekki láta það koma ykkur á óvart!

Við sveltum sannarlega ekki í þessari ferð og mikið sem það var gaman að prófa alls konar mat, bæði þennan gríska og annan!

Mikið vona ég að þið hafið haft gagn og gaman af þessum lestri. Hér fyrir neðan er síðan stutt Krítarfilma frá Instagram.

Það sem toppar síðan öll ferðalög er að fá hreinan og fínan bíl afhentan beint fyrir utan flugstöðina við heimkomu! Ég get ekki lýst þægindunum sem þetta hefur í för með sér, bæði að keyra alveg upp að innritunarhurðinni við komu og einhver er þar og tekur við lyklunum, síðan að einhver bíði aftur með lyklana á sama stað við heimkomu, algjör lúxus!

Við höfum nýtt þjónustuna hjá Suðurbón undanfarið þegar við viljum láta þrífa hann líka en annars Park4U ef við erum bara að láta geyma hann. Þjónustan hjá þeim er algjörlega til fyrirmyndar og ég ELSKA að þetta sé í boði!

Suðurbón og Park4u

Við fórum í þessa frábæru ferð með Vita ferðaskrifstofu en þau bjóða upp á beint flug og hótel til Krítar frá því um miðjan maí fram í lok september. Fararstjórinn okkar hún Eva Arna var síðan algjörlega dásamleg og var okkur innan handar með allar spurningar varðandi ferðir og annað bras svo ég mæli 100% með!

icelandair

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun