Lasagna eins og hjá mömmu⌑ Samstarf ⌑
Lasagna eins og hjá mömmu

Hér er uppskrift sem mamma hefur eldað margoft í gegnum tíðina og kemur úr bókinni Matarlyst sem Osta- og smjörsalan gaf út á sínum tíma. Þetta lasagna er rjómakennt og ólíkt öllum öðrum og svo ofboðslega gott!

lasagna uppskrift

Ég má til með að gera langa sögu stutta í kringum þessa uppskrift! Ég bað mömmu um að senda mér þessa uppskrift en þá hafði hún Íris, hundasystir mín gætt sér á þessari bók ásamt fleirum og mamma miður sín að eiga hana ekki lengur því margar af hennar uppáhalds uppskriftum í henni. Ég ákvað því að kanna mátt samfélagsmiðla og óskaði eftir slíkri bók á Instagram hjá Gotterí. Það voru ótal manns sem áttu bókina og nokkrir sem buðu mér að eiga sitt eintak. Ég þáði því boðið hjá henni Soffíu Ófeigs, sótti bókina, setti á hana slaufu og færði mömmu hana. Við erum að tala um líklega 20-25 ára gamla bók svo þetta var virkilega skemmtilegt, og hér fáið þið eina dúndurgóða!

lasagne uppskrift

Lasagna eins og hjá mömmu

Fyrir 5-7 manns

 • 10-12 lasagna plötur
 • 600 g nautahakk
 • 1-2 laukar (eftir smekk)
 • 70 g smjör
 • 8 msk. tómatsósa
 • 300 ml rjómi frá Gott í matinn
 • 3 tsk. oregano krydd
 • Salt og pipar eftir smekk
 • Rifinn Gouda (26%) ostur frá Gott í matinn
 • Hvít sósa (sjá uppskrift hér að neðan)
 1. Leggið lasagna plöturnar í bleyti í kalt vatn á meðan annað er undirbúið.
 2. Hitið ofninn í 200°C og smyrjið eldfast mót að innan með smjöri.
 3. Saxið laukinn smátt og steikið upp úr 70 g af smjöri þar til hann mýkist, bætið þá hakkinu á pönnuna og steikið við háan hita þar til það er vel brúnað og allur vökvi hefur gufað upp, kryddið eftir smekk.
 4. Bætið næst tómatsósu, rjóma og oregano á pönnuna, blandið vel saman og lækkið síðan hitann á meðan þið útbúið hvítu sósuna (sjá uppskrift hér að neðan).
 5. Raðið síðan í eldfasta mótið; hvít sósa, lasagna plötur, hvít sósa, hakk (helmingurinn), hvít sósa, lasagnaplötur, hvít sósa, hakk (hinn helmingurinn), hvít sósa, lasagnaplötur, hvít sósa og loks vel af rifnum Gouda osti (26%).
 6. Setjið síðan í ofninn í um 25 mínútur eða þar til osturinn fer að gyllast. Gott er að bera lasagna fram með fersku salati og baguette brauði/hvítlauksbrauði.

Hvít sósa

 • 70 g smjör
 • 60 g hveiti
 • 800 ml nýmjólk
 • 1 tsk. salt
 1. Bræðið smjörið í potti og sáldrið hveitinu þá saman við til að útbúa smjörbollu.
 2. Bætið mjólkinni saman við hægt og rólega og pískið saman allan tímann, hrærið vel þar til þykkur jafningur hefur myndast og slökkvið þá á hellunni og saltið.
lasagna með rjóma

Rjóminn gerir þetta lasagna einstakt og mikið sem það er gott!

lasagna

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun