EyjafjallajökullEyjafjallajökull

Það er sannarlega kominn tími á smá fjallgöngupóst hingað inn! Ég er alltaf dugleg að deila með ykkur í story á Instagram en svo finnst mér gaman að ná að setjast niður og skrifa ítarlegri færslur hingað inn annað slagið þar sem ég veit að þær hafa gagnast mörgum sem hyggja á svipaðar ferðir. Hér kemur því smá umfjöllum um Eyjafjallajökul en hann toppaði ég ásamt elstu dóttur minni og fríðu föruneyti á vegum Viking Woman þann 9.júní síðastliðinn!

Hér fyrir ofan er stutt myndband sem ég gerði strax eftir ferðina og birti á Instagram.

Eyjafjallajökull ganga

Ferðin hófst frá bílablaninu að Seljavallarlaug snemma morguns! Það var dásamlegt veður en engu að síður þarf að hafa fullan bakpoka af alls kyns fatnaði og mat, því skjótt skipast veður í lofti! Við byrjuðum hreinlega á hlýrabol að ganga og voru leiðsögumennirnir okkar þennan daginn þær Stella og Erla sem voru alveg frábærar! Ég keypti Osprey bakpoka handa Hörpu minni áður en við fórum í ferðina því þær hafa hingað til bara fengið mitt lánað en nú eru þær farnar að koma svo oft með mér að þær þurfa að fara að eiga sitt eigið göngudót. Pokann fengum við í Ellingssen en þetta er 38 lítra, Osprey Kyte dömu göngubakpoki og hann er alveg geggjaður! Ég sjálf á stærri týpuna af Kyte en það var gott að fá þennan í safnið því þá getum við notað þetta sundur/saman eftir því sem við á hverju sinni.

Eyjafjallajökull ganga

Toppurinn virtist alltaf svo nærri, en þetta var uppgangan endalausa ef ég má orða það sem svo, hahaha!

Ellingsen

Við tókum nokkrar stuttar nestispásur á leiðinni og eina góða áður en farið var í línuna. Mikilvægt er að hafa sólarvörn og sólgleraugu á svona degi á jökli! Við Harpa erum báðar með Bliz gleraugu og fást þau í Ellingsen og eru ÆÐI! Ég keypti líka þessa primaloft úlpu á hana frá Mountain Hardware fyrir ferðina og hún er svo geggjuð, létt og hlý að mig langar smá að fá mér líka…..en ég á frá uppáhalds Bergans, sem ég elska líka svo ég ætla að hafa mig hæga, hahaha!

sprungur á jöklum

Á leiðinni í línunni voru nokkrar sprungur. Þökk sé köldu vori/byrjun á sumri voru þær hins vegar mjög þröngar ennþá en djúpar voru þær, maður minn, svo það er vissara að vera með jöklaleiðsögumann fremst í fyrstu línu sem tryggir okkur hinum öryggi alla leið á toppinn!

Veðrið var mjög gott alla leiðina, við vorum virkilega heppnar! Það komu ský af og til en gufuðu sem betur fer upp af toppnum áður en við komum á hann!

Eyjafjallajökull ganga

Mínar bestu konur! Það er líklega ekki oft sem það er hægt að borða nesti og spóka sig um í 1600 m hæð á peysunni einni saman svo við tókum langa nestispásu og ætluðum aldrei að tíma að fara og hefja niðurgönguna, hahaha!

Eyjafjallajökull ganga

Yndislega Erla Þórdís leiðsögukona með kakóbolla í paradís!

Eyjafjallajökull ganga

Hér er síðan þessi frábæri hópur saman kominn að vinna með „timer“ á símanum, gekk svona líka vel, hahaha!

Hulda litla mín gerði kókoskúlur og stal ég nokkrum með mér í gönguna og verð að segja þær eru snilldar nesti!

Eyjafjallajökull ganga

Ég ELSKA að vera búin að smita dætur mínar af fjallabakteríunni því þetta er klárlega með gáfulegri fjölskyldusportum sem hægt er að hugsa sér! Hlakka því til komandi tíma með allri fjölskyldunni á fjöllum. Sú yngsta er aðeins 7 ára svo við erum enn að æfa okkur á fellunum hér í Mosfellsbæ en hún verður komin með í lengri göngur áður en við vitum af!

Gangan sjálf var í heildina um 16 km með 1600 m hækkun. Allir sem eru í fínu formi geta gengið þennan jökul með dass af þrautseigju og þolinmæði. Það má ekki vanmeta formið sitt því það er alls ekki gaman að örmagnast eða ná ekki að njóta á leiðinni svo gott er að vera aðeins búin/n að ganga sig til fyrir svona verkefni! Ég ætla ekki að neita því að uppgangan tók alveg á en þá er mikilvægt að hafa hausinn á réttum stað, næra sig vel og halda jafnt og þétt áfram. Við fórum þessa ferð sem dagsgöngu, lögðum snemma af stað úr bænum, gengum og stoppuðum svo í Midgard í kvöldmat áður en við keyrðum síðan í bæinn. Það var því gott að komast heim í heita pottinn, sturtu og upp í rúmið sitt!

Eyjafjallajökull ganga

Í lok göngu er síðan snilld að hafa smá snarl í kælitösku í bílnum, setjast niður, teygja vel, spjalla og háma aðeins í sig, hahaha!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun