P A R Í SEffelturninn

Loksins settist ég niður til að skrifa þessa færslu fyrir ykkur! Við mægður skelltum okkur til Parísar í lok apríl með stuttum fyrirvara. Stelpurnar voru með langan óskalista af alls konar til að skoða og gera og ég áttaði mig á því að ég er að ala upp maraþon ferðamenn, hahaha!

HIGHLIGHTS Á INSTAGRAM FRÁ PARÍS

Hvað á að gera í París

Ég segi svosem alltaf að það er til einskis að ferðast um heiminn ef maður ætlar ekki að skoða það sem hver áfangastaður hefur upp á að bjóða svo við tókum klárlega Parísarmaraþon í þessari ferð, gengum eina 60 km á þremur dögum og þetta var svoooo gaman. Ef maður vill fara í slökun og gera ekki neitt þá er hins vegar fínt að fara bara til Tenerife, hahaha!

Hvað á að gera í París

Ég tók allt of mikið af myndum eins og venjulega og ætla að setja hér niður fyrir ykkur allt það sem við gerðum í máli og myndum svo þetta verður smá langloka!

Við vildum vera vel staðsettar og völdum hótel sem var snyrtilegt og með rúmgott herbergi fyrir okkur þrjár (3 rúm, ekki svefnsófi). Hótelið heitir Hotel Korner Opéra og var á milli 2nd og 9th hverfanna (Arrondissement) og var að okkar mati frábær staðsetning. Hótelið sjálft er þó alls ekki merkilegt, minnti meira á gistiheimili en hótel en við vissum að við yrðum lítið á herberginu svo staðsetning og gott pláss hafði vinninginn. Tókum ekki morgunmat því það var svo mikið af bakaríum sem var búið að mæla með svo við vorum bara með drykki og snarl í ísskápnum og síðan prófuðum við mörg bakarí og veitingastaði þessa þrjá daga!

Við lentum um hádegi, skelltum töskunum upp á hótel og byrjuðum að arka um borgina. Við skiptum henni niður í þrjá hluta og tókum einn hluta fyrir á hverjum degi.

París

Við vorum orðnar svangar eftir ferðalagið svo við gengum upp á Pink Mamma en þar er fallegur veitingastaður með hrikalega góðum pizzum, pasta og ítölskum mat. Við náðum ekki að bóka borð í tíma og fórum í sér röð fyrir utan en náðum þó að vera komnar inn eftir líklega 20 mínútur af sólbaði í röðinni en ég mæli með að bóka borð með fyrirvara!

La Maison Rose

Í nágrenni Pink Mamma voru ýmis kennileiti og skoðuðum við Passage des Panoramas göngugötusvæðið, Wall of fame, Moulin Rouge (sem hrundi svo nokkrum dögum síðar), Montmartre, La Maison Rose og röltum svo upp að Basilique du Sacré kirkjunni fallegu eftir matinn.

Moulin rouge

Það er alltaf gaman að þramma um borgir og skoða sig um.

Basilique du Sacré

Kirkjan var sannarlega falleg og skoðuðum við okkur um í kringum hana en fórum ekki inn, sem mér skilst að sé undurfallegt svo ég mæli með að þið skoðið þann möguleika.

Hvað á að gera í París

Elenóra (Bakaranóra) var búin að mæla með alls kyns bakaríum og kaffihúsum við okkur og prófuðum við Jeffrey Cagnes og Maison Louvard (smákökucrossiant) en það eru bakarí á hverju götuhorni og hvert öðru betra.

Hvað á að gera í París

Síðdegis þennan fyrsta dag kíktum við síðan í Galeries Lafayette Haussmann verslunarmiðstöðina en þar er hægt að fara upp á þakið og fá dásamlegt útsýni yfir alla borgina. Við pöntuðum síðan McDonalds með Uber eats þar sem við vorum frekar þreyttar eftir langan dag, haha!

Hvað á að gera í París

Næsta dag byrjuðum við í Jefrrey Cagnes bakaríinu og röltum svo um Jardin du Palais Royal garðinn en þar er fallegt að ganga um og skoða til dæmis Place la concorde, Pont Alexandre III brúnna, Petit Palais og fleira. Þaðan röltum við upp á verslunargötuna Champs-Elysées og framhjá Dior safninu á leiðinni. Ætlunin var að fara þangað inn en ef það er ekki búið að bóka miða fyrirfram er röðin ansi löng! Þennan daginn hefðum við þurft að bíða úti í 2-3 klukkutíma og það var frekar kalt í veðri svo við létum duga að kíkja í gluggana. Við gengum upp að Sigurboganum (Arc de Triomphe) og fórum upp í hann og síðan í hádegismat á Miss Ko sem er geggjaður japanskur staður!

Sigurboginn París

Næst lá leiðin yfir að Effelturninum! Við vildum bæði sjá hann að degi til og kvöldi til svo þetta var ferðin okkar þangað að degi til. Hann er fallegur úr fjarska og síðan er þetta auðvitað bara risastór stálgrind þegar maður stendur nálægt, hahaha! En þetta er eitt helsta kennileiti heims svo það var virkilega gaman að skoða hann úr ýmsum áttum.

Effelturninn

Við áttum síðan bókað á Louvre safnið síðdegis þennan dag svo við drifum okkur næst þangað!

Hvað á að gera í París

Við bókuðum miða þangað með fyrirvara og ég mæli með því, jafnvel að kaupa miða „skip the line“ því það er ansi troðið þarna og gott að sleppa við röðina fyrir utan. Við náðum að bera Monu Lisu augum og taka einn góðan hring á safninu og settumst svo niður í kaffi!

París

Harpa var búin að merkja ýmsa „Emily in Paris“ (sem er vinsæl þáttaröð hjá yngri kynslóðinni) staði niður og skoðuðum við ýmsa slíka, bæði byggingar og „setup“ á safni og fleira.

Notre Dame parís

Við kíktum síðan í Westfield mollið og almáttugur það voru hrikaleg vonbrigði, við vorum ekki lengi að láta okkur hverfa þaðan, hahaha. Síðan voru „Thrift“ búðir vinsælar hjá Hörpunni minni og mælum við með Kiloshop og FreepStar. Við fundum síðan Victoria Secret, LuluLemon, Other Stories og síðast en ekki síst Normal, sem er uppáhaldið hennar Elínar, haha!

La Favorite Saint Paul

Síðasta daginn okkar byrjuðum við á heimsókn í Bibliotheque nationale bókasafnið og kíktum svo á La Favorite Saint Paul. Þaðan röltum við yfir að Notre Dame og borðuðum hádegismat á Loubnane sem er líbanskur veitingastaður sem Harpa Ólafs vinkona mín hafði bent mér á.

París

Eftir hádegismat kíktum við síðan í Shakespeare bookshop og Abbey bookshop.

Abbey bookshop

Næst röltum við yfir að Panthéon og að fleiri Emily in Paris stöðum (Terra Nera/Gabriel restaurant).

pantheon

Við fengum okkur ís á Amorino og næst lá leiðin í Jardin du Luxembourg sem er undurfallegur garður!

Mmm……

Hvað á að gera í París

Þar mæli ég með að setjast niður með Ladurée makkarónur og njóta aðeins!

Ladurée makkarónur í París

Eftir smá skoðunarrúnt um þennan fallega garð var skyldustopp á Café de Floré en það er held ég eins Parísarlegt kaffihús og þið komist í!

Hvað á að gera í París

Stelpurnar eltu síðan áfram Emily in Paris staði inn í Musée d’Orsay og síðan röltum við aftur fram hjá Louvre safninu á heimleið á hótelið.

Kvöldmaturinn var síðan tekinn á Gruppomimo, ítölskum stað, rétt hinumegin við götuna og svo tókum við í fyrsta sinn leigubíl í þessari fer til þess að sjá Effelturninn að kvöldi til og það var geggjuð upplifun.

Hvað á að gera í París

Ég mæli með að gera kort í „my maps“ á Google maps og festa alla áhugaverða staði inn. Þannig er hægt að skipuleggja hvern dag betur og taka ákveðið svæði fyrir í stað þess að þramma fram og aftur eða missa af því að sjá eitthvað sem var á listanum. Við náðum að skoða ansi margt en ekki allt á óskalistunum, það er oftast þannig en maður vinnur með þann tíma sem að maður hefur og gerir sitt besta.

Það er síðan fátt betra en að fá hreinan og heitan bíl keyrðan beint upp að flugstöðinni við heimkomu! Lagning sér til þess að veita okkur þessa þjónustu og fá fylgjendur Gotterí 10% afslátt með kóðanum „gotteri10“ þegar þeir bóka sér þjónustu á heimasíðu Lagningar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun