Eldhúsið okkarfallegt eldhús

LOKSINS fékk elsku fallega eldhúsið okkar uppfærslu. Ég man svo vel daginn sem við ákváðum að steinplata og parket yrði að bíða til að við gætum haldið „budgeti“ þegar við vorum að koma okkur inn í húsið fyrir tæpum 9 árum. Ég fór í fýlu í smá stund, valdi plastplötu í Fanntófell og var viss um að steinn yrði kominn á eyjuna innan skamms. Síðan liðu bara þessi níu ár eins og hendi væri veifað og alltaf var eitthvað gáfulegra að gera fyrir peninginn en uppfæra eldhúsið, eins og að ferðast og leika sér!

Það má því kannski segja að Covid hafi aðstoðað okkur við að taka loksins borðstofu og eldhús í gegn því það var ekki eins og við værum mikið að eyða peningum í ferðalög síðustu tvö árin! Við ákváðum því að fjárfesta í þessar uppfærslu í fyrra og hefur þetta ferli tekið okkur rúmt ár að klárast.

Við byrjuðum á borðstofunni og kláruðum hana rétt fyrir jólin 2021. Síðan fórum við í endurbætur í eldhúsinu og aðalmálið þar var að fá steinplötu. Ný og falleg steinplata kallaði hins vegar á endurnýjun á fleiri hlutum því það er einhvern veginn þannig að eitt nýtt kallar á meira nýtt og úr varð að við skiptum alls konar hlutum.

Hér fyrir neðan er því smá samantekt á því sem við erum búin að vera að brasa og vonandi hjálpar þetta einhverjum sem er í svipuðum hugleiðingum með sitt eldhús.

Eldhúsbreytingar

Við erum með sérsmíðaðar eikar innréttingar og hurðir í öllu húsinu og án þess að fara að skipta út neinum innréttingum langaði okkur að breyta aðeins og reyna að gera eldhús og borðstofu meira töff og flott. Við höfum því aðeins verið að skipta út hlutum og blanda meiru svörtu og hvítu við eikina sem okkur finnst hafa komið mjög vel út.

Hér fyrir neðan eru tvær svipaðar yfirlitsmyndir af eldhúsinu, sú efri eftir breytingar og sú neðri eins og eldhúsið var fyrir nokkrum árum.

Hvernig á að hanna eldhús

Eftir breytingar….

Fyrir breytingar…

Eldhúsið fyrir

Við vorum alveg ánægð með eldhús og borðstofu eins og það var en það er alltaf gaman að breyta til og sumir hlutir sem máttu alveg við uppfærslu. Við vorum alveg búin að breyta einhverju á síðustu árum og reyna að mjaka okkur í áttina að því sem við vildum og núna finnst okkur þetta rými fullkomið!

Eldhúshönnun hugmyndir

Nú erum við líka búin að tengja eldhús og borðstofu vel með eikinni, svarta og hvíta litnum.

Steinplata í eldhús

Steinplata í eldhús

Steinninn er án efa mesta breytingin og vorum við heillengi að velja stein og ráðfæra okkur við snillingana hjá Steinlausnum. Þeir eru með svo mikið af fallegum steinum en okkur langaði í hvítan í grunninn en samt með smá lífi. Þar sem við erum komin með svolítið mikið svart fannst okkur þessi Quartz plata sem heitir Etheral Haze passa best. Hún er hvítari en margar í grunninn en það var einmitt það sem við vildum til að poppa upp eikar innréttinguna. Vorum líka að skoða Snowy Ibiza og Lagoon en fannst þær of líkar plötunni sem við vorum með fyrir og aðeins meira út í drapplitað.

Það er oft betra að horfa á myndbönd í stað mynda til að sjá útlit á steini betur svo hér fyrir ofan er stutt Reels myndband frá Instagram sem sýnir þessa fegurð!

Hvernig á að velja steinplötu í eldhús

Það sem toppaði þetta síðan alveg var að fá þá til að skera út risa flís í kringum gluggann og sníða stein inn í gluggakistuna alla! Bless bless blauta og flagnaða veggmálning við vaskinn og halló snyrtileiki!

Svartur ísskápur í eldhús

Tvöfaldur ísskápur

Við vorum með hvítan Samsung ísskáp sem við keyptum notaðan af vini okkar þegar við fluttum inn 2013 (annað budget mál, tíhí) og keyptum nýjan Samsung í fyrra sem er svartur, mattur og kemur mjög vel út. Við vorum búin að fara í marga hringi með val á ísskápum í Heimilistækjum, Raflandi og víðar. Ég var alveg hörð á því að vilja „French Door“ ísskáp en eftir að hafa stúderað alla flóruna og raðað inn í slíkan í huganum í búðunum fannst mér skúffan niðri ekki endilega vera málið. Ég endaði því á frekar „Basic“ Samsung ísskáp í Heimilistækjum sem var á góðu verði og sé alls ekki eftir því, hann tekur endalaust við og er æðislegur!

Góðir bakaraofnar frá Siemens

Bakaraofnar

Þegar maður bakar og eldar mikið er algjörlega dásamlegt að vera með tvo ofna! Við vorum með fína ofna frá Siemens með 3D hitakerfi og langaði mig mikið að uppfæra þá í 4D hitakerfi. Ég lét það því eftir mér að kaupa tvo nýja slíka sem eru svartir og hinir fínu stállituðu fengu ný heimili! Ég verð þó að segja að 4D hitakerfið er algjör snilld. Ég finn mikinn mun á því sérstaklega þegar ég er að baka hversu jafn hitinn er, svo er líka innbyggður kjöthitamælir og alls konar annað sniðugt í þessum ofnum. Ég vildi hins vegar ekki ofn með gufu eða neinu slíku þar sem ég nota oftast sömu stillinguna sem er 4D blástur, hvort sem ég er að elda eða baka. Einfalt er nefnilega oftast bara best! Ég mæli því eindregið með þessum frábæra Siemens ofni frá Smith & Norland.

Eldhús og borðstofa eftir breytingar.

Svört mött blöndurnartæki í eldhús

Vaskur og blöndunartæki

Ný blöndunartæki voru næst á dagskrá! Við vorum með ódýran vask úr Múrbúðinni sem keyptur var í snarhasti á sínum tíma þegar við vorum á barmi bugunar að koma okkur inn fyrir jól, hahaha! Kraninn var einnig farinn að bila. Núna langaði mig í svartan undirlímdan vask og svört, útdraganleg blöndunartæki. Ég keyrði um ALLAN bæ, skoðaði allt sem var til alls staðar (sem var reyndar alls ekki mikið úrval), skoðaði alls konar á netinu á erlendum síðum og komst síðan að því að Ísleifur Jónsson væri með það sem mér þætti fallegast. Þetta var einn fyrsti staðurinn sem ég fór á og þarna endaði ég aftur, hahaha! Bæði vaskurinn og blöndunartækin eru mött og alveg guðdómlega falleg frá Hans Grohe. Eigum við síðan eitthvað að ræða það hvað það er næs að hafa útdraganlegan krana! Af hverju í ósköpunum er ég ekki löngu komin með svona sniðugheit!

Svört hrærivél frá Kitchen Aid

Hrærivél

Ég ætla að leyfa mér að segja að hér fyrir ofan sjáið þið mína bestu vinnukonu. Ég elska þessa hrærivél og auðvitað varð ég að fá mér svarta í stíl við allt saman. Síðan notaði ég hvítu fallegu skálina af hinni hrærivélinni minni og það kemur svona vel út. Ég nota reyndar venjulega alltaf stálskálarnar þegar ég er að baka/elda en hef svo keramikskál í henni þess á milli því mér finnst það fallegra. Þetta er hrafnasvört mött Kitchen Aid hrærivél 185 frá Rafland.

Nespresso kaffivél

Kaffivél

Þessa kaffivél keyptum við fyrir rúmu ári og hún er algjör draumur. Við keyptum hana í Byggt & Búið en ég get ekki séð að hún sé til lengur en þar er hinsvegar úrval af kaffikönnum!

Starbucks kaffi

Það er svo handhægt að þurfa ekki að hella upp á heila könnu þegar gesti ber að garði og við elskum Starbucks kaffið. Starbucks var stofnað í Seattle á sínum tíma og er einmitt upprunalegi Starbucks staðurinn við Pike Place og því kaupi ég oftar en ekki það kaffi því það vekur upp góðar minningar.

Starbucks og Pike Place í Seattle

Í eldhúsinu okkar er einmitt að finna mynd af þeim Starbucks stað sem við keyptum á Pike Place Market þegar við bjuggum ytra og þykir afar vænt um.

Hillur í eldhúsi

Við erum með risastóra eyju og mér fannst mikilvægt að brjóta hana upp með hillum og slíku. Þar geymi ég fallega muni, bækurnar mínar sem og aðrar uppskriftabækur og það er bara eitthvað svo heimilislegt við að hafa ekki allt lokað inn í skáp.

Le Creuset svartur mattur pottur

Le Creuset pottarnir mínir eru þar á meðal og ég elska þá! Þessi svarti, stóri og matti pottur er nýjasta viðbótin mín og það er dásamlegt að eiga svona stóran pott fyrir pottrétti, súpur og annað sniðugt! Þennan fékk ég í Byggt & búið og eru þeir til í öllum stærðum.

Vínkælir

Vínkælir

Við skiptum síðan einum skáp í innréttingunni út fyrir vínkæli en við fundum akkúrat einn svona lítinn og krúttlegan í Heimilistækjum sem smellpassaði í stað skápsins. Við keyptum þennan á janúarútsölunni og þar er úrval af flottum Temptech vínkælum.

Veggklukka úr eik

Mamma og pabbi gáfu okkur síðan þessa fallegu veggklukku í jólagjöf en þetta er VITRA-Ball Clock úr beyki og fæst hún meðal annars í Pennanum.

Svartar skálar í eldhús undir ávexti

Fallegir munir setja síðan punktinn yfir I-ið á eyjunni og þessar dásamlegu Nordal skálar fékk ég hjá Húsgagnahöllinni og þær henta afar vel undir ávexti og fleira. Iittala vasann hef ég átt lengi og finnst mér fallegt að blanda honum svona léttum úr gleri með svörtu skálunum.

Fallegir hlutir í eldhús

Hinumegin á eyjunni er síðan þessi dásamlegi svarti Riverdale bakki sem ég er búin að raða alls konar fallegu á og er dugleg að skipta út eftir því í hvernig stuði ég er.

Hljóðvist í eldhúsi og stofu

Hljóðvist

Við höfum búið hér í tæp 9 ár og alltaf verið að bíða eftir að setja parket, fleiri húsgögn, hengja upp myndir og þess háttar í þeirri von um að hljóðvistin skánaði. Það hefur hins vegar ekki lagast þrátt fyrir allt slíkt svo tími var kominn til að leita alvöru lausna hvað það varðar. Við fengum ráðgjöf hjá Áltak og keyptum meðal annars hjá þeim loftaplötur um allt hús. Ég hefði aldrei trúað því að þær myndu gera svona mikið og það er gríðarlegur munur á hljóðvist í húsinu eftir að þær voru hengdar upp! Fólk hefur haft það á orði sem hefur komið oft til okkar hversu mikinn mun það finnur og núna erum við ekki lengur að ærast þegar það eru matarboð og veislur. Almáttugur hvað ég vildi óska við hefðum gert þetta strax í stað þess að bíða svona lengi.

Hljóðplötur í loft eru góð hljóðvist

Við settum eina stóra plötu yfir eyjuna, þrjár í stofuna og tvær í stigahúsið. Leyfi einni mynd af stofunni að fylgja hér með til þess að þið getið mátað svona lausnir í huganum heima hjá ykkur. Við erum með Ecophon Solo hljóðvistarplötur, þær eru hvítar og verð ég eiginlega að segja að þær setja bara ákveðinn stíl á heimilið.

FAllegt eldhús

Við keyptum einnig hjá þeim Tripplex viðarpanel sem settur var á vegginn í borðsstofunni og undir eyjuna að hluta til. Það er líka partur af hljóðlausn svo það er nú þvílíkur munur í öllu húsinu. Við lentum í smá vandræðum með endann á eyjunni því við þurftum aðeins að stytta hana til að fá engin samskeyti á steinplötuna. Úr varð sár í flísnum og þær hættar í framleiðslu! Við brugðum því á það ráð að smíða bekk yfir sárið og erum einmitt að bíða eftir þunnri leðursessu til að setja þarna ofan á. Þetta var fínasta redding og kemur sér líka vel þegar stelpurnar vilja hjálpa til í eldhúsinu nú eða ef maður vill bara tylla sér niður og horfa út í bakgarð!

Eldhústeikningar

Við erum í það minnsta hæstánægð með útkomuna og vona ég að þessi færsla hafi gefið ykkur sniðugar hugmyndir!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun