Haustið og rútínan er að skella á í öllu sínu veldi eftir dásamlega síðsumardaga. Um helgina kíktum við mæðgur út í garð þar sem runnarnir eru fullir af dásamlegum dökkum sólberjum og tíndum í fulla skál á nokkrum mínútum. Ekki skemmdi síðan fyrir að geta stokkið upp í móann hér bak við hús og náð í rabbabara til að bæta í bökuna. Nóg af dásamlegu súkkulaði er einnig í uppskriftinni og þannig næst betra jafnvægi á móti því súra.
Sólberjabaka uppskrift
- 200 gr smjör við stofuhita
- 150 gr hveiti
- 80 gr púðursykur
- 60 gr sykur
- 100 gr haframjöl
- 30 gr kókosmjöl
- 1 tsk vanillusykur
- 100 gr konsum súkkulaðidropar
- 80 gr rjómasúkkulaði með karamellukurli og sjávarsalti
- 150 gr niðursneiddur rabbabari
- 130 gr sólber
- Hitið ofninn 180°C.
- Blandið saman smjöri, hveiti, púðursykri, sykri, haframjöli, kókosmjöli og vanillusykri til að búa til grunndeigið.
- Setjið um 2/3 af deiginu í botninn á eldföstu bökuformi og þrýstið vel upp á hliðarnar (ekki gleyma að smyrja formið fyrst).
- Stráið síðan rabbabara, sólberjum og báðum tegundum af súkkulaði yfir til skiptis.
- Að lokum fer restin af deiginu yfir í um 1-2 cm bitum.
- Breiðið álpappír yfir bökuna og bakið þannig í um 25 mínútur, takið þá álpappírinn af og bakið áfram í 20-25 mínútur í viðbót eða þar til bakan fer að gyllast.
Það var svo gott veður að farið var með bökuna út á pall í sólina og hún borðuð með ís eða rjóma…..já eða bara bæði!