Mig langaði að prófa eitthvað nýtt í skírnarveislu dóttur minnar um daginn. Þar sem ég hef alla tíð verið mikið fyrir „mini“ allt þá lét ég loksins verða af því að gera krukkukökur. Ég fann þessar litlu sætu sultukrukkur í Hagkaup í Spönginni og þá var ekki aftur snúið. Að þessu sinni valdi ég uppskrift í takt við litaþema veislunnar og var þetta það krúttlegasta á veisluborðinu. Ég fæ líklega æði fyrir krukkukökum í framhaldinu og hlakka til að prófa mig áfram með ýmsar hugmyndir í þeim efnum.
Svampbotnar
- 6 egg
- 225 gr sykur
- 150 gr hveiti
- 75 gr kartöflumjöl
- 1 ½ tsk lyftiduft
- Þeytið saman egg og sykur þar til létt og ljóst.
- Blandið þurrefnunum saman í skál og blandið rólega saman við eggjablönduna.
- Setjið bökunarpappír í 2 x ofnskúffu og skiptið deiginu á milli (þetta er þunnt lag af deigi enda viljum við fá þunna botna).
- Bakið við 220°C í um 7-9 mínútur eða þar til botnarnir verða örlítið gylltir.
- Þegar botnarnir hafa kólnað eru skornir út jafn stórir hringir og sú krukkustærð sem þið notið og reynið að nýta botnana vel (þessi uppskrift gaf mér um 50 litla hringi sem fóru í 25 krukkur).
Jarðaberjarjómi
- 750 ml rjómi
- 500 gr fersk jarðaber
- Maukið jarðaberin í blandara og setjið til hliðar.
- Stífþeytið rjómann og blandið síðan jarðaberjamaukinu saman við með sleif.
- Best fannst mér síðan að sprauta rjómanum í krúsirnar með 1,5 cm hringlaga stút.
Samsetning
- Fyrst fer svampbotn, því næst jarðaberjarjómi, aftur svampbotn og að lokum jarðaberjarjómi.
- Gott er að setja lokin á krúsirnar á þessum tímapunkti og best að leyfa botnunum að drekka í sig rjómann í að minnsta kosti sólahring (mér fannst þetta best tveggja sólahringa gamalt).
- Áður en bera á krukkurnar fram þeytti ég 500ml af rjóma, sprautaði ofan á hverja krús og setti síðan smá kökuskraut á toppinn sem hefði allt eins getað verið jarðaber eða annað álíka.
One Reply to “Kræsingar í krús”