Þar sem maðurinn minn er mikill aðdáandi alls með kókos prófuðum við þetta árið að gera kókosútfærslu af sörunum ásamt því sem við gerðum líka þessar hefðbundnu.
Þessar eru alveg S V A K A L E G A góðar svo ef ykkur langar að eiga eitthvað gott yfir hátíðarnar þá mæli ég með þessum!
Sörur uppskrift
- 90 gr gróft kókosmjöl frá „Til hamingju“
- 180 gr möndlur frá „Til hamingju“
- 220 gr flórsykur
- 4 eggjahvítur
- Setjið möndlurnar í matvinnsluvél þar til þær verða að mjöli og blandið þá saman við flórsykurinn.
- Stífþeytið eggjahvíturnar og blandið saman við möndlublönduna með sleif.
- Vefjið að lokum kókosmjölinu saman við blönduna með sleif.
- Setjið kúfaðar teskeiðar með smá millibili á bökunarplötu og bakið við 180°C í um 13-16 mínútur.
- Kælið og útbúið kremið á meðan.
Krem
- 4 eggjarauður
- 6 msk sýróp
- 260gr smjör við stofuhita
- 3 msk bökunarkakó
- 2 tsk kaffi
- Stífþeytið eggjarauðurnar þar til þær eru þykkar og gulleitar.
- Velgið sýrópið á meðan og hellið varlega útí þeyttar rauðurnar í mjórri bunu og þeytið áfram.
- Blandið smjörinu saman við blönduna og þeytið áfram þar til létt og ljóst.
- Að lokum fer kakóið og kaffið saman við blönduna og þeytt áfram.
- Gott er að miða við góða teskeið af kremi á hverja köku og hægt að setja það á með hníf eða sprautupoka. Gott er að setja magnið á miðjuna og draga svo niður að hliðunum til að mynda nokkurs konar topp með kreminu. Athugið að smyrja kreminu á sléttu hliðina!
- Setjið kökurnar í frysti jafnóðum á meðan þið smyrjið og þá verða þær tilbúnar til dýfingar þegar þið eruð búin að setja krem á allar.
Hjúpur
- Um 300gr af dökku súkkulaði
- Bræðið súkkulaðið í lítilli djúpri skál í örbylgjuofni eða vatnsbaði. Ef örbylgjuofninn er notaður er gott að hita súkkulaðið í 20-30 sekúndur í einu og hræra á milli.
- Takið um 3-5 kökur úr frystinum í einu og dýfið í súkkulaðihjúpinn. Reynið að ná taki á kökunni fyrir neðan kremið og dýfið nægilega djúpt til að súkkulaðið snerti kökuna sjálfa allan hringinn og kremið verði þannig þakið hjúp.
- Leyfið súkkulaðinu að storkna og geymið svo í frysti/kæli og berið fram eftir hentugleika.