Ég hreinlega elska að útbúa ostabakka. Að dúllast og raða alls konar gúmmelaði á bakka finnst mér alveg svakalega skemmtilegt. Þennan ostabakka útbjó ég á dögunum fyrir Facebook leik hjá Óðalsostum.
Þegar ég var yngri og það komu gestir heim til mömmu og pabba pantaði ég alltaf að fá að útbúa ostabakka og koma með fram fyrir gestina, mamma mín er þessu klárlega til staðfestingar. Ég man ég losaði oft mandarínu og setti vínber eða annað í miðjuna, vínber voru lykilatriði í þá daga, ostar, banani (já banani og ritzkex fara vel saman) og alls konar góðgæti. Ég var meira að segja búin að gleyma þessu með mandarínuna og bananann svo ég mun klárlega prófa það á næsta bakka og upplifa smá nostalgíu!
Þessi ostabakki er með Havartí piparosti sem ýmist er búið að skera í sneiðar eða teninga. Ég myndi segja hann sé svona mitt á milli þess að vera eins og Gouda og Piparostur en það er auðvitað bara mitt mat. Hann passar alveg dásamlega sem ostapinnaostur og raðaði ég upp nokkrum pinnum með ólífum, grillaðri papriku, vínberjum og salami.
Á bakkanum var ég líka með baguette brauð og kex ásamt pestó, hnetum og alls konar ávöxtum.
Mæli með þið skellið í ostabakka um helgina!