
Elsku besta æskuvinkona mín og nafna varð fertug fyrr á árinu. Við höfum verið vinkonur frá því að við vorum fimm ára og bjuggum garð í garð á Seltjarnarnesinu alla okkar barnæsku.

Eina vesenið var að vera á sitthvoru skólaárinu en samt bara með fjóra mánuði á milli okkar. Ég í nóvember árinu á undan og hún svo í mars árið eftir, hún náði mér samt alltaf á endanum og gerir enn 🙂

Við heitum báðar Berglind og mæður okkar beggja heita Elín svo auðvitað var þetta voða sport á sínum tíma. Við klúðruðum þessu svo reyndar algjörlega með því að skíra ekki stelpurnar okkar sem fæddust með tveggja mánaða millibili Elín, hahaha!

Þegar Berglind bað mig um að gera eftirréttaturn fyrir sig var auðvitað ekki hægt að segja nei því hvað gerir maður ekki fyrir elsku vinkonu sína til 35 ára.

Sjá þessa fallegu fertugu skvísu, held samt það sé ekki sjens við séum orðnar fertugar, þetta er pottþétt einhver misskilningur bara.

Ég keyrði austur á Selfoss með öll herlegheitin og raðaði saman fyrir hana. Ég bakaði eina litla köku á toppinn, fullt af bollakökum, bæði litlar og stórar í bland og síðan keypti hún makkarónur, jarðaber og blóm og ég setti þetta allt saman.

Það er svo ótrúlega gaman að raða á svona stand og allar veitingar verða hreinlega miklu fallegri.

Þeir sem hafa áhuga á að leigja plexistandinn geta haft samband á gotteri@gotteri.is en hann ásamt öðru sniðugu er til leigu hér á síðunni en þennan keypti ég í Fást.