
Það er alltaf gaman að prófa ný salöt. Sykruðu valhneturnar settu klárlega punktinn yfir i-ið í þessu salati og vá hvað þetta var gott!

Svo sumarlegt og fallegt!

Ég hef ekki prófað að setja epli og perur áður í salat og kom það skemmtilega á óvart hversu gott það var, sætar perur og stökk epli í bland við salat, sykraðar hnetur og litla seiga döðlubita……namm!

Salat með sykruðum valhnetum uppskrift
Salat
- 1 poki blandað salat
- ½ epli
- 1 lítil þroskuð pera
- 1 lúka Til hamingju saxaðar döðlur
- Sykraðir valhnetukjarnar og balsamikgljái (sjá uppskriftir hér að neðan)
- Dreifið úr salatinu í skál og skerið epli og peru í þunnar sneiðar og blandið saman.
- Valhnetum og döðlum blandað saman við og balsamikgljáa dreift yfir að vild.
- Þessi salatgrunnur er dásamlegur einn og sér eða sem meðlæti með öðrum mat. Einnig er hægt að bæta fetaosti, geitaosti eða kjúklingastrimlum saman við salatið til að auka fyllingu.
Sykraðar valhnetur
- 100 g Til hamingju valhnetukjarnar
- 40 g sykur
- 10 g smjör
- Hitið sykur á pönnu þar til hann fer að leysast upp.
- Bætið þá smjörinu saman við og leyfið aðeins að bubbla, þar til brún karamella hefur myndast.
- Takið þá af hitanum, hellið valhnetunum saman við og hrærið vel.
- Dreifið úr hnetunum á bökunarpappír og leyfið þeim að kólna/storkna.
Balsamikgljái
- 1 pressað hvítlauksrif
- 60 ml balsamik edik
- 2 msk púðursykur
- ½ tsk salt
- ½ tsk pipar
- 120 ml ólífuolía
- Blandið öllu nema ólífuolíu saman í pott og hitið við vægan hita þar til sykurinn er uppleystur.
- Blandið þá ólífuolíunni saman við í mjórri bunu og hrærið vel allan tímann.
- Dreifið yfir salatið eða berið fram í skál til hliðar, eða bæði.
