
Valentínusardagurinn nálgast og minn maður veit fátt betra en síld! Síldarsnittur eru síðan ótrúlega einföld lausn til að búa til dýrindis veislumat.

Pabbi bakar alltaf reglulega rúgbrauð og ég fékk uppskriftina hjá honum. Það áttu reyndar að vera í henni muldir rúgkjarnar en það er þrautinni þyngra að finna þá í verslunum svo ég hagræddi uppskriftinni örlítið til að einfalda málið! Útkoman var undurljúffengt og milt rúgbrauð sem fór einstaklega vel með síldinni.

Henný vinkona var síðan með pikklaðan rauðlauk með vefjum um daginn þegar við fórum í mat til þeirra og hann var alveg hrikalega góður. Hún sendi mér uppskriftina sem er ofureinföld og ég mæli með að allir eigi svona fínheit í ísskápnum fyrir snittur, hamborgara, vefjur eða annað góðgæti.

Rúgbrauðssnittur með sinnepssíld og pikkluðum rauðlauk
Um 12 snittur
- 1 stk. rúgbrauð (sjá uppskrift hér að neðan en einnig hægt að kaupa tilbúið)
- 2-3 krukkur af Ora Dijonsíld með sinnepsfræjum (magn eftir smekk, ég notaði nánast 3 krukkur)
- 3 harðsoðin egg ( ¼ hluti á hverja snittu)
- Pikklaður rauðlaukur eftir smekk
- Baunaspírur til skrauts (má sleppa)
- Smá pipar yfir í lokin
Heimabakað rúgbrauð uppskrift
Uppskrift dugar í 3 rúgbrauð
- 600 g rúgmjöl
- 300 g hveiti
- 200 g sykur
- 4 tsk. lyftiduft
- 1 tsk. salt
- 1 l nýmjólk
- Hitið ofninn í 95°C og setjið ofngrind neðst í ofninn.
- Hafið tilbúnar þrjár 1 l mjólkurfernur sem búið er að opna alveg í annan endann.
- Hrærið saman öllum hráefnunum (ég notaði K-ið í hrærivélinni og skóf niður á milli).
- Skiptið deiginu jafnt niður í mjólkurfernurnar (ég fyllti þær rúmlega til hálfs).
- Setjið álpappír yfir hverja fernu og bakið í 13 klukkustundir.
- Leyfið brauðinu að kólna alveg áður en þið skerið það niður og útbúið síldarsnittur.
- Gott er að plasta vel og frysta brauðið sem ekki á að njóta fljótlega.
Pikklaður rauðlaukur uppskrift
Það er nóg að gera ½ uppskrift fyrir síldarsnitturnar en þessi laukur geymist þó vel í lokuðu íláti í kæli og dásamlegt að eiga hann á hamborgara, vefjur eða annað góðgæti.
- 3 meðalstórir rauðlaukar
- 250 g sykur
- 250 ml vatn
- 250 ml borðedik
- 2 msk. rauðbeðusafi (fyrir bleikari lit, má sleppa)
- Skerið laukinn niður í þunnar sneiðar (heila hringi) og losið þær í sundur, setjið í stóra krukku/skál sem hægt er að loka.
- Sjóðið saman sykur, vatn og edik þar til sykurinn er uppleystur og bætið að lokum rauðbeðusafanum saman við.
- Hellið sjóðandi blöndunni yfir laukinn, setjið lokið á og setjið inn í kæli yfir nótt. Laukurinn geymist síðan vel í kæli.

Dijonsíld með sinnepsfræjum er algjört lostæti!
