
Bollugleðin heldur áfram hjá mér og hér kemur ein sem er algjört DÚNDUR!

Súkkulaðirjómi með súkkulaði og Oreo Crumbs og mjúkur súkkulaðiglassúr, namm! Þessar birtust í bollubæklingi Hagkaups þetta árið og getið þið séð hann hér fyrir neðan.
Mikið af dásamlegum bollum frá frábærum bloggurum er að finna í bæklingnum!

Vatnsdeigsbollur með Oreo uppskrift
15-18 stykki
- 180 g smjör
- 360 ml vatn
- 200 g hveiti
- 1 tsk. lyftiduft
- ¼ tsk. salt
- 3-4 egg (160 g)
- Hitið ofninn í 180°C.
- Hrærið saman hveiti, lyftidufti og salti í skál og geymið.
- Hitið saman vatn og smjör í potti þar til smjörið er bráðið og blandan vel heit og takið þá af hellunni.
- Hellið hveitiblöndunni saman við smjörblönduna og hrærið/vefjið saman við með sleif þar til allir kekkir eru horfnir og blandan losnar auðveldlega frá köntum pottsins.
- Flytjið blönduna yfir í hrærivélarskálina og hrærið á lægsta hraða með K-inu og leyfið hitanum þannig að rjúka aðeins úr blöndunni.
- Pískið eggin saman í skál og setjið þau saman við í litlum skömmtum og skafið niður á milli. Best er að vigta blönduna því egg eru misstór og nota aðeins 160 g henni til þess að deigið verði ekki of þunnt.
- Setjið bökunarpappír á ofnplötur og hver bolla má vera um 2 matskeiðar af deigi (ein vel kúpt matskeið).
- Bakið í 27-30 mínútur, bollurnar eiga að vera orðnar vel gylltar og botninn líka, ekki opna þó ofninn fyrr en í fyrsta lagi eftir 25 mínútur til að kíkja undir eina. Helstu mistök sem fólk gerir er að baka bollurnar ekki nógu lengi og þá geta þær fallið.
Fylling
- 600 ml rjómi
- 2 msk. Cadbury bökunarkakó
- 120 g saxað Milka Oreo súkkulaði
- Þeytið rjóma og bökunarkakó saman.
- Vefjið Milka Oreo súkkulaði saman við súkkulaðirjómann og setjið á bollurnar.
Súkkulaðiglassúr og skraut
- 110 g brætt smjör
- 210 g flórsykur
- 2 msk. Cadbury bökunarkakó
- 2 tsk. vanilludropar
- Oreo Crumbs með kremi
- 250 ml þeyttur rjómi
- Lítil Oreokex (15-18 stykki)
- Hrærið saman brætt smjör, flórsykur, bökunarkakó og vanilludropa þar til slétt og falleg súkkulaðibráð hefur myndast.
- Smyrjið á bollurnar og skreytið með Oreo Crumbs.
- Þeytið rjómann, setjið í sprautupoka og sprautið smá rjóma á hverja bollu og stingið litlu Oreokexi ofan í rjómatoppinn.

Elska að skreyta kökur, bollakökur og eftirrétti með svona litlu krúttlegu Oreo kexi. Síðan finnst stelpunum mínum þetta æði og gott að grípa með í ferðalög og sparinesti því það er svo auðvelt að loka boxinu aftur.

Slurp!
