
Það er eitthvað við rjómalagað pasta sem við fjölskyldan elskum. Við getum gert endalausar útgáfur af slíkum réttum og alltaf borða allir vel. Ekki skemmir fyrir ef eldamennskan tekur skamma stund og það á svo sannarlega við þessa uppskrift hér.

Þegar maður notar ferskt pasta tekur aðeins örfáar mínútur að sjóða það og ég elska allt fyllta pastað sem er til frá Pastella, en það er til tortellini, ravioli og fleiri gómsætt.

Að þessu sinni ákvað ég að nota tortellini með skinku en ef aðrar bragðtegundir heilla ykkur meira er lítið mál að prófa þessa sömu uppskrift með þeim.

Rjómalagað tortellini uppskrift
- 2 x Pastella Tortellini með skinku
- 200 g stökkt beikon
- 1 lítill brokkolíhaus
- 200 g sveppir (blanda af Portobello og Shiitake)
- 2 hvítlauksgeirar (rifnir)
- 1 piparostur
- 500 ml rjómi
- Ólífuolía til steikningar
- Salt, pipar og hvítlauksduft
- Parmesanostur (til að rífa yfir)
- Byrjið á því að skera brokkolí og sveppi niður og leggja til hliðar.
- Næst má skera stökkt beikonið smátt og geyma á disk til hliðar (mér finnst best að grilla það í ofninum og leggja á eldhúspappír til að mesta fitan leki af).
- Byrjið síðan á því að steikja brokkolíbita upp úr vel af olíu og krydda til eftir smekk. Setjið nokkrar matskeiðar af vatni á pönnuna í lokin ef þið viljið mýkja það aðeins betur, takið síðan af pönnunni og geymið í skál.
- Steikið nú sveppina á sömu pönnu þar til þeir mýkjast ásamt hvítlauknum og kryddið til, setjið síðan í skálina með brokkolíinu.
- Nú má útbúa sósuna á pönnunni með því að rífa piparostinn og blanda saman við rjómann. Hitið og hrærið þar til osturinn er bráðnaður.
- Næst má sjóða pastað (það tekur aðeins 3 mínútur) og blanda grænmetinu saman við rjómasósuna.
- Þegar pastað er klárt má láta renna af því og bæta því síðan, ásamt beikoninu á pönnuna og blanda vel saman.
- Gott er að bera pastað fram með vel af rifnum parmesanosti.

Namm þetta var svo góður pastaréttur!

Það var gaman að blanda Shiitake sveppum við Portobello en auðvitað má nota hvaða sveppi sem er í þessa uppskrift.

Njótið!
