
Ég áttaði mig á því á dögunum að ég hafði aldrei sett hingað inn mexíkósúpu okkar fjölskyldunnar! Það var því sannarlega löngu kominn tími til og í þetta skiptið prófaði ég að skipta klassíska rjómaostinum út fyrir rjómaost með grillaðri papriku og chilli og það var hrikalega gott!

Það var alveg smá meira „spicy“ svo þið sem eruð viðkvæm fyrir slíku getið til dæmis prófað ykkur áfram með magn og haft hluta klassískan og hluta með chilli og papriku.

Mexíkósúpa uppskrift
Fyrir um 4 manns
- 1 rauð paprika
- 1 blaðlaukur
- ½ laukur
- 4 kjúklingabringur
- 1 flaska Heinz Chili sósa (340 g)
- 600 g hakkaðir tómatar í dós (1 ½ dós)
- 500 ml vatn
- 300 g rjómaostur með grillaðri papriku og chilli frá Gott í matinn
- 150 ml rjómi frá Gott í matinn
- Salt, pipar og hvítlauksduft
- 1 msk. kjúklingakraftur
- Ólífuolía til steikingar
- Sýrður rjómi frá Gott í matinn
- Rifinn ostur frá Gott í matinn
- Nachosflögur
- Skerið papriku í strimla og saxið blaðlauk og lauk, geymið.
- Skerið kjúklinginn niður í munnstóra bita, steikið léttilega í pottinum upp úr ólífuolíu. Kryddið til með salti, pipar og hvítlauksdufti og leggið svo til hliðar.
- Steikið nú grænmetið í sama potti, bætið við olíu og kryddið eftir smekk.
- Þegar grænmetið mýkist má blanda chili sósunni, hökkuðum tómötum, vatni og rjómaosti saman við og hræra þar til rjómaosturinn er bráðinn saman við súpuna.
- Þá má setja kjúklingakjötið og rjómann í pottinn og leyfa að malla aðeins áfram, kryddið til með krafti og kryddum.
- Berið fram með sýrðum rjóma, rifnum osti og nachosflögum.

Það er um að gera að leika sér aðeins með bragðtegundir og þessi rjómaostur smellpassaði í stað þess hefðbundna í þessa súpu.

Mexíkó kjúklingasúpa er eitthvað sem flestir elska og síðan er auðvitað ekkert vitlaust að gera rúmlega eina uppskrift til þess að eiga til upphitunar næsta dag og slá þannig tvær kvöldmatarflugur í einu höggi.
