
Það er kominn föstudagur og þá er tilvalið að hafa mexíkóskt þema í eldamennskunni! Það er svo ekta föstudags að gera vefjur, tacos, nachos eða þvíumlíkt!

Það var að koma svo mikil snilld á markaðinn frá Old El Paso, en það eru svona „vefjuvasar“! Þetta er í raun eins og mjúk tortilla nema núna þarf ekkert að hugsa um að brjóta upp á öðru megin eða hafa áhyggjur af því að eitthvað leki út úr vefjunni því það er bara hægt að hrúga ofan í vasann og njóta áhyggjulaust!

Þetta hentaði súpervel fyrir mína 4 ára (sem er hér handamódel fyrir mömmu sína) sem endar alltaf með vefjuna sína lausa og allt út um allt!

Vefjuvasar með kjúklingi
12 stykki/fyrir 4-6 manns
- 12 stykki Old El Paso Tortilla Pockets
- 4 kjúklingabringur
- 12 sneiðar stökkt beikon
- Kál
- Avókadó
- Tómatar
- Laukur
- Rifinn ostur
- Old El Paso nachos flögur (muldar)
- Kóríander
- Old El Paso tacosósa
- Sýrður rjómi
- Ólífuolía
- Salt, pipar, hvítlauks- og paprikuduft
- Byrjið á því að merja kjúklingabringurnar niður með kökukefli/buffhamri svo úr verði þynnri stykki og nokkuð jöfn á þykkt.
- Steikið kjúklingabringurnar næst upp úr ólífuolíu við háan hita í 1-2 mínútur á hvorri hlið þar til þær brúnast vel. Lækkið þá hitann og setjið lokið á pönnuna, leyfið að malla í 6-8 mínútur og snúið einu sinni, hvílið bringurnar svo á meðan annað er útbúið því þá verða þær safaríkari. Skerið síðan niður í þunnar sneiðar.
- Skerið þá eldað, stökkt beikon niður ásamt öllu grænmeti.
- Hitið vefjuvasana samkvæmt leiðbeiningum á pakka, smyrjið sýrðum rjóma og tacosósu inn í hvern vasa og fyllið með kjúklingi, osti, grænmeti og muldum nachos flögum.

Ég óskaði eftir hugmyndum á Instagram um hvað mætti fara í svona vefjuvasa og flestir sögðu kjúkling svo ég ákvað að byrja á því. Það komu hins vegar mun fleiri hugmyndir og ég hlakka til að prófa fleiri og deila með ykkur.
Vefjuvasarnir fást í Krónunni, Fjarðarkaup og Melabúðinni.

Það er skemmtileg tilbreyting að hafa stökkt, mulið beikon með í svona vefju, mæli með því að þið prófið.
