Ég elska svona Tik-Tok hugmyndir sem oft fara eins og eldur um sinu og skapa hvert æðið á eftir öðru! Ég sá svipaða pælingu um daginn og ákvað að prófa að gera svona morgunverðarvefju. Það er ótrúlega sniðugt að vinna með vefjur í svona fjórðungum, hreinlega hægt að setja hvað sem er í þær og síðan grilla eða steikja!

Það er gott að nota 10″ vefjur í þetta þó svo það sé auðvitað hægt að nota líka minni. Ef þið viljið síðan hefðbundna hveitivefju frekar þá má að sjálfsögðu skipta þeirri heilhveiti út. Mér fannst þessi týpa betri á meðan dætur mínar kusu hveitivefju og vildu sleppa avókadóinu, sú var reyndar líka algjör negla svo ég hvet ykkur til að prófa það sem ykkur þykir best!

Morgunverðarvefja
Uppskrift gefur 4 stykki
- 4 x 10“ Old El Paso heilhveitivefjur
- 4 egg
- 12 stökkar, eldaðar beikonsneiðar
- 2 avókadó
- Rifinn ostur (mozzarella og cheddar í bland)
- Salt og pipar
- Ólífuolía og smjör til steikingar.
- Hrærið eggin saman í skál, saltið og piprið og steikið upp úr ólífuolíu á pönnu sem þunna eggjaköku.
- Skerið næst eggjakökuna í 4 hluta.
- Stappið avókadó og skerið beikonið smátt niður.
- Takið vefju, skerið upp í hana miðja á einum stað og ímyndið ykkur að þið séuð búin að skipta henni upp í fjóra hluta/fjórðunga.
- Raðið síðan eggi á einn hluta, beikoni á einn, stöppuðu avókadó á einn og rifnum osti á einn.
- Flettið síðan eggjahlutanum á beikhlutann, því næst á avókadóhlutann og öllu loks yfir á ostinn.
- Steikið á pönnu við meðalháan hita upp úr smjöri á báðum hliðum.

Osturinn og avókadóið mýkir þetta vel upp og það þarf í raun enga sósu en það má að sjálfsögðu „drissla“ smá majónesi yfir þetta fyrir þá sem slíkt kjósa. Við prófuðum Street Food majónes frá Hellmann’s með garlic & jalapeno og það var líka mjög gott og þægilegt að sprauta því yfir!

Hér kemur smá mynd af símanum sem sýnir ferlið betur!
