Kransastjarna



⌑ Samstarf ⌑
stjarna úr kransaköku og marsípani

Dálæti mitt á kransaköku hefur engan endi svo hér kemur gómsæt og jólaleg útfærsla sem tilvalið er að skella í fyrir næsta jólaboð og hátíðirnar sem styttist í!

Kransakaka gotterí

Hugmyndina af stjörnunni sá ég á netinu og ákvað að gera mína útfærslu af slíkri fyrir ykkur!

Kransakökubitar

Kransastjarna

Uppskrift dugar í tvær stjörnur

Stjarna

  • 700 g Odense Marcipan
  • 150 g sykur
  • ½ – ¾ eggjahvíta (um 20 g)
  1. Setjið allt saman í hrærivélina og hnoðið með K-inu þar til blandan fer að þéttast.
  2. Takið úr vélinni og hnoðið í höndunum þar til vel samlagað og þétt kúla hefur myndast.
  3. Plastið kúluna vel og kælið í að minnsta kosti 2 klukkustundir eða yfir nótt.
  4. Teiknið þrjá misstóra þríhyrninga á bökunarpappír (18, 15 og 12 cm með jöfnum hliðum). Hægt er að teikna 1 þríhyrning af hverri stærð á eina bökunarplötu svo gerið tvær slíkar fyrir sitthvora stjörnuna.
  5. Rúllið út jafnar lengjur, um 1,5 cm í þvermál, skerið niður 6 lengjur af hverri stærð og raðið á þríhyrningana á hvorri plötu. Snyrtið aðeins af endunum til þess að þeir tengist betur saman og sléttið úr samskeytunum eins og unnt er með fingrunum.
  6. Bakið við 200° í 10-12 mínútur eða þar til stjörnurnar fara að dökkna.
  7. Kælið vel og sprautið síðan glassúr og súkkulaði á þær með mjóum hringlaga stút.
  8. Raðið stjörnunum síðan saman svo efsta og neðsta snúi eins og sú í miðjunni öfugt við hinar svo úr verði fallegt stjörnumynstur.
  9. Skreytið með blómum eða öðru sem hugurinn girnist.

Skreyting

  • 1 eggjahvíta
  • 200 g flórsykur
  • 100 g brætt dökkt súkkulaði
  1. Setjið eggjahvítu og flórsykur í hrærivélina og þeytið vel saman.
  2. Notið örmjóan hringlaga stút eða klippið lítið gat á sterkan poka og sprautið glassúr á allar stjörnurnar.
  3. Bræðið næst súkkulaðið og endurtakið leikinn með því, leyfið súkkulaði og glassúr næst að storkna vel áður en þið raðið saman stjörnunum og skreytið.
Odense marsípan í kransakökuna

Þessar stjörnur eru fullkomnar í eftirrétt, með kaffinu, í jóla- eða áramótaboðið og auðvitað hægt að skreyta þær með því sem hugurinn girnist og í þeim litum sem hentar!

Kransakökubitar

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun