Fyllt kransakökuhjarta⌑ Samstarf ⌑
Kransakaka í hjartalaga formi

Nú eru fermingar hafnar að fullum krafti og því ekki úr vegi að koma með eitthvað nýtt í kransakökumálum hingað á bloggið. Margir leggja ekki í að gera heila kransaköku og síðan er auðvitað hægt að útfæra kransaköku á ótal vegu. Ég sá þessa hugmynd hjá henni yndislegu Elínu Olsen sem er bakarastelpa sem gerir fullt fallegt á Instagram.

Hjartalaga kransakaka

Ég notaði sama magn af marsípani í þessa uppskrift og ég geri fyrir heila kransaköku því ég ákvað að hafa hjörtun aðeins breiðari en hringina fyrir kökuna og síðan gerði ég fullt af litlum kransakökubitum til að setja ofan í hjartað.

Kransakökuhjarta fyllt að innan

Fyllt kransakökuhjarta uppskrift

(3 hæðir og 35-40 bitar)

 • 1,5 kg ODENSE Marsípan (þetta bleika)
 • 750 g sykur
 • 100 g eggjahvítur (um 3 stk)
 1. Brytjið marsipanið niður í nokkra hluta og setjið í hrærivélarskál með sykrinum, blandið vel saman með K-inu.
 2. Hrærið eggjahvíturnar saman og setjið í nokkrum skömmtum saman við marsípanblönduna. Gott að taka síðan blönduna og hnoða aðeins í höndunum, plasta vel og kæla í að minnsta kosti 4 klst eða yfir nótt.
 3. Teiknið hjarta á bökunarpappír og dragið í gegn svo þið hafið 3 eins hjörtu á pappír. Ég teiknaði eins stór og platan þoldi en auðvitað má gera þau í þeirri stærð sem þið óskið.
 4. Skiptið deiginu í 4 hluta. Síðan má skipta 3 af þeim í tvennt og rúlla út sitthvora lengjuna fyrir hjartað sitthvoru megin (ég var með um 300 g af marsípani þegar ég var að rúlla út hvern helming af hjörtunum).  
 5. Hvor lengja má vera um 2 cm á þykkt og í kringum 50 cm á lengd (fer eftir stærð hjartans hjá ykkur) og skera má af henni í miðjunni efst og neðst til að þær smelli saman.
 6. Reynið að láta lengjuna elta hjartateikninguna ykkar miðja og þannig verða öll hjörtun svipað stór.
 7. Allt umfram marsípan má síðan nýta til að skera út bita, um 6 cm langa.
 8. Bakið hjörtun við 190°C í um 13 mínútur (ofnar eru misjafnir svo hér þarf bara að fylgjast vel með og taka þau út þegar þau eru farin að dökkna) og bitana aðeins styttra.
 9. Kælið vel og sprautið fyrst hvítu og síðan dökku súkkulaði yfir og raðið saman. Ég bræddi súkkulaði og setti í sprautupoka með pínulitlum hringstút en einnig má klippa pínulítið gat á zip-lock poka/sprautupokann. Einnig er hægt að frysta hjörtun/bitana og raða þeim saman síðar en þá er betra að bíða með að sprauta súkkulaðinu á þar til raða á þeim saman en þó ekki nauðsynlegt.
 10. Fyllið hjartað að innan með því sem hugurinn girnist og skreytið að vild. Ég setti súkkulaðihjúpuð jarðarber, kransakökubitana auðvitað og makkarónur (keyptar tilbúnar) ofan í  og skreytti með ferskum blómum og það kom mjög vel út. 
Kransakökuhjarta með Odense marsípani

Mæli svo mikið með því að þið prófið þetta og síðan má auðvitað fylla hjartað með hverju sem hugurinn girnist!

Kransakaka uppskrift

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun