Ég reyni að koma hingað inn með einhverjar nýjungar fyrir hverja Hrekkjavöku. Það er alveg komið ágætis safn og hér koma tvær skemmtilegar hugmyndir til viðbótar.

Okkur fjölskyldunni finnst síðan gaman að skreyta og reynum alltaf að gera innganginn í húsið okkar pínu krípi fyrir Hrekkjavökuna. Þannig fá nágrannarnir að skemmta sér yfir gleðinni með okkur og það verður skemmtilegra fyrir krakkana að koma við í „grikk og gott“!

Hrekkjavökukaka og marengsdraugar
Súkkulaðibotnar
- 240 g hveiti
- 280 g sykur
- 70 g púðursykur
- 90 g bökunarkakó
- 2 tsk. matarsódi
- 1 tsk. salt
- 250 ml AB mjólk
- 150 ml ljós matarolía
- 4 egg
- 2 tsk. vanilludropar
- 150 ml heitt vatn
- 100 ml heitt kaffi
- Hitið ofninn í 170°C.
- Setjið bökunarpappír í botninn á 4 x 15 cm kökuformum og spreyið vel að innan með matarolíuspreyi.
- Hrærið þurrefnin saman í skál.
- Pískið AB mjólk, egg, matarolíu og vanilludropa saman í aðra skál og blandið saman við þurrefnin á lágum hraða í hrærivélinni.
- Hellið síðan bæði heitu vatni og kaffi í mjórri bunu saman við og hrærið áfram á lágum hraða, skafið niður á milli.
- Deigið er nokkuð þunnt í sér og þannig á það að vera.
- Skiptið niður í formin fjögur og bakið í um 30 mínútur eða þar til prjónn kemur út með smá kökumylsnu á endanum, ekki blautu deigi.
- Kælið og skerið ofan af/jafnið botnana áður en þið setjið saman.
Krem og samsetning
- 250 g smjör við stofuhita
- 1000 g flórsykur
- 3 tsk. vanilludropar
- 100 ml rjómi
- Dr.Oetker matarlitir
- Dr.Oetker sykuraugu
- Kökuskraut í hrekkjavökulitunum
- Marengsdraugar (sjá uppskrift að neðan)
- Hrærið smjörið þar til það verður létt og ljóst.
- Bætið flórsykri saman við í nokkrum skömmtum á víxl við rjómann og skafið niður og hrærið vel á milli.
- Bætið vanilludropum saman við og þeytið vel þar til kremið verður silkimjúkt.
- Smyrjið kremi á milli botnanna og grunnhjúpið kökuna með þunnu lagi af kremi.
- Kælið hana í að minnsta kosti 15 mínútur og smyrjið þá þunnu lagi á miðjusvæðið og þekið það með kökuskrauti.
- Litið næst rúmlega 2/3 af því kremi sem eftir stendur appelsínugult.
- Setjið um 1 cm þykkt lag af kremi fyrir ofan og neðan kökuskrautið og slétta úr því ásamt því að setja krem yfir toppinn og slétta úr. Festið næst augun á miðjuna með smá kremi.
- Næst má lita smá krem svart, smá grænt og smá fjólublátt, setja í sprautupoka og sprauta litlar stjörnur/doppur meðfram kantinum á toppi kökunnar.
- Setjið næst kökuskraut ofan á toppinn og stingið í hann marengsdraugum.
- Á INSTRAGRAM hef ég gert sambærilega sprunguköku svo þið getið kíkt í Highlights fyrir aðferðina.

Marengsdraugar
Um 8-10 stykki
- 2 pokar Dr. Oetker marengsduft
- 150 ml vatn
- Dr.Oetker sykuraugu
- Kökuskraut í hrekkjavökulitum
- Pappaprik
- Hitið ofninn í 100°C.
- Þeytið marengsduft og vatn saman í um tvær mínútur eða þar til topparnir halda sér vel og blandan er stífþeytt.
- Setjið í sprautupoka með 1 til 1 ½ cm breiðum hringlaga stút.
- Festið pappaprik á bökunarpappír á bökunarplötu og sprautið síðan drauga, gott er að láta að minnsta kosti 1/3 af honum ná niður á pappaprikið til þess að hann haldist vel á.
- Setjið augu og smá kökuskraut á hvern draug og bakið í 75 mínútur, slökkvið á ofninum og opnið litla rifu, leyfið að kólna í um klukkustund áður en þið losið af plötunni.
- Hér á INSTAGRAM getið þið séð aðferð við að útbúa sambærilega pinna til þess að átta ykkur betur á ferlinu.

Stelpurnar mínar hafa reglulega fengið að halda „Hrekkjavökupartý“ eftir að búið er að ganga í hús og ætli sú yngsta fari ekki að taka við í þeim efnum.
