Döðlugott, döðlukubbar, döðlubitar eru víst allt heiti sem flestir ættu að kannast við. Það er eitthvað alveg ómótstæðilegt við þessar uppskriftir þó svo hver hafi sinn sjarma. Hér kemur útfærsla sem auðvelt er að útbúa. Best er að geyma kubbana í kæli en einnig er sniðugt að frysta hluta af þeim og taka út eftir hentugleika.
Svo einfalt og gott!

Döðlukubbar uppskrift
- 550 g Til hamingju saxaðar döðlur
- 250 g smjör
- 130 g púðursykur
- 130 g Rice Krispies
- 300 g lakkrískurl
- 150 g dökkt súkkulaði
- 150 g mjólkursúkkulaði
- Klæðið skúffukökuform (um 30 x 40 cm) að innan með bökunarpappír.
- Setjið döðlur, smjör og púðursykur í pott. Bræðið saman við meðalháan hita í um 15 mínútur, hrærið mjög reglulega í allan tímann.
- Þegar nokkurs konar döðlumauk hefur myndast í pottinum má taka hann af hellunni og blanda lakkrís og Rice Krispies saman við.
- Hellið blöndunni í skúffukökuformið og þjappið henni niður. Gott er að bera smá matarolíu á botninn á glasi/desilítramáli og þjappa með því.
- Setjið í frysti í um 15 mínútur og bræðið súkkulaðið á meðan.
- Setjið báðar tegundir af súkkulaði í skál og bræðið í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði. Ef þið notið örbylgjuofninn er fínt að miða við 20 sekúndur í senn og hræra alltaf í blöndunni á milli.
- Smyrjið yfir döðlublönduna og frystið að nýju í um 15 mínútur eða þar til súkkulaðið storknar.
- Skerið niður í kubba og geymið í kæli.

Nammi gott!
