Namm, hér er á ferðinni ofureinfaldur og hollur réttur sem tekur um 15-20 mínútur að útbúa!

Harpa Karin elsta dóttir mín elskar lax og hollandaise svo hún var frekar glöð þegar hún sá hvað var í bígerð þennan daginn.

Smjörsteiktur aspas er undursamlegur með laxinum og fyrir ykkur sem viljið gera aðeins meira úr máltíðinni mætti sjóða með þessu kartöflur.

Lax með aspas og hollandaise sósu
Fyrir um 4-6 manns
Hollandaise sósa uppskrift
- 2 pk. TORO hollandaise-sósa
- 150 g smjör
- 300 ml vatn
- 200 ml nýmjólk
- 2 tsk. sítrónusafi
- Pipar eftir smekk
- Bræðið smjörið í potti og hrærið sósuduftinu saman við.
- Setjið vatn og mjólk næst saman við, náið suðu og lækkið þá vel niður og leyfið að malla.
- Bragðbætið með sítrónusafa og pipar eftir smekk.
- Gott er að leyfa sósunni að malla á meðan þið útbúið aspasinn og laxinn.
Smjörsteiktur aspas
- Um 600 g ferskur aspas
- Um 70 g smjör
- 3 hvítlauksrif
- Salt og pipar
- Skerið endana af stönglunum og steikið aspasinn upp úr smjöri við miðlungs hita í nokkrar mínútur eða þar til hann fer að mýkjast.
- Rífið hvítlaukinn þá niður og bætið á pönnuna og kryddið til með salti og pipar.
- Steikið aðeins áfram eða þar til hvítlaukurinn ilmar vel og aspasinn er orðinn mjúkur.
- Færið aspasinn yfir á fat/diska og steikið næst laxinn.
Lax
- Um 1200 g laxaflök/bitar
- Smjör og ólífuolía til steikingar
- Salt, pipar og fiskikrydd
- Verið búin að roðfletta og þerra laxabitana vel áður en þið hefjist handa.
- Setjið vel af smjöri í bland við ólífuolíu á pönnu við frekar háan hita.
- Steikið fiskinn í 2-3 mínútur á hvorri hlið eða þar til hann er bleikur í gegn.
- Kryddið eftir smekk á báðum hliðum.
- Færið yfir á disk og njótið með aspas og hollandaise sósu.

Fljótleg, holl og góð máltíð sem engan svíkur!
