Já krakkar mínir, nú er Halloween búið og þá mega jólin koma!

Hér kemur því fyrsta formlega jólauppskriftin mín þetta árið. Algjörlega dásamlegur hátíðarmarengs sem allir munu elska og gaman að bera fram yfir hátíðarnar!

Ég var að fá mér þessa undursamlegu svörtu skál frá Kitchen Aid og hún gjörbreytti hrærivélinni, sem áður var með hvíta keramikskál eða stálskál. Það er ótrúlega gaman að skipta út skálum til að fríska upp á útlitið í eldhúsinu og mæli með því að þið kíkið á úrvalið hjá Rafland.

Sjáið bara þessa fegurð!

Hátíðarmarengs
Um 8 stykki
Marengs
- 5 eggjahvítur
- 250 g sykur
- 1 tsk. Cream of tartar
- Hitið ofninn í 90°C.
- Þeytið eggjahvíturnar þar til þær byrja aðeins að freyða.
- Bætið sykrinum saman við í nokkrum skömmtum og þeytið vel í nokkrar mínútur.
- Þegar blandan er orðin stífþeytt má setja Cream of tartar saman við og þeyta stutta stund áfram.
- Setjið blönduna í sprautupoka með hringlaga stút (um 1 – 1,5 cm í þvermál) og sprautið litla „snúða“ á bökunarpappír, á bökunarplötu. Marengsinn mun stækka svolítið svo miðið stærðina við það. Blandan á að duga í um 16 „snúða“.
- Bakið í 45 mínútur og slökkvið á ofninum og leyfið marengsinum að kólna niður með honum.
Þristasósa
- 200 g Þristasúkkulaði
- 100 ml rjómi
- Skerið Þristasúkkulaði niður í bita og bræðið á meðalháum hita með rjómanum.
- Hrærið reglulega í á meðan og leyfið sósunni síðan aðeins að kólna áður en þið notið hana (allt í lagi þó lakkrísbitarnir sjálfir séu ekki bráðnaðir)
Fylling og skraut
- 500 ml þeyttur rjómi
- 100 g Þristasúkkulaði (smátt saxað)
- 8 litlar kókosbollur skornar í bita
- Hindber (um 125 g)
- Rifsber (um 125 g)
- Flórsykur til að sigta yfir
- Vefjið sælgætinu saman við þeytta rjómann.
- Geymið berin og flórsykurinn þar til í lokin (sjá samsetningu).
Samsetning
- Parið saman tvær og tvær marengskökur til að setja saman.
- Setjið Þristasósu á neðri botninn og leyfið hitanum alveg að fara úr áður en þið setjið rjómann yfir.
- Setjið vel af rjóma á hverja köku og lokið næst með hinni marengskökunni.
- Setjið aftur Þristasósu á efri kökuna og skreytið með berjum.
- Sáldrið smá flórsykri yfir í lokin með sigti.

Þegar kókosbollur og Þristur koma saman getur heldur ekki margt klikkað.