
Ef það er eitthvað sem ég þarf eftir bolluát undanfarinna daga þá er það einn svona drykkur takk! Sprengidagurinn tekur svo við á morgun þannig að það er gott að jafna þetta allt saman aðeins út!

Það er ofureinfalt að útbúa svona græna orkubombu heima ef þið eruð með góðan blandara. Við vorum einmitt að fá okkur nýjan Kitchen Aid blandara eftir að sá eldri hefur þjónað okkur í um 15 ár! Það er búið að skipta nokkrum sinnum um plastskrúfuna neðst þar sem við höfum verið að brussast með hann og einu sinni brotnaði skálin og við keyptum nýja, annars hefur hann staðið sig eins og hetja. Hann virkar alveg ennþá en þegar ég er að setja heil jarðarber, engiferbita og slíkt hafa stundum verið eftir litlir bitar sem ekki tætast upp og því ákváðum við að fá okkur öflugri.

Við erum aðeins að uppfæra nokkra þætti í eldhúsinu okkar og mun ég sýna ykkur betur frá því þegar nær dregur vori. Heiða mágkona var að kaupa sér hrafnasvarta hrærivél og ég hreinlega kolféll fyrir henni og pantaði mér eins sem ég get ekki beðið eftir að fá eftir nokkrar vikur. Því ákvað ég að taka blandarann í sama lit svo allt sé í stíl. Það er hins vegar úr ansi mörgum fallegum litum að velja hjá Rafland fyrir áhugasama. Þessi blandari er helmingi öflugri en sá gamli og hann á ekki í nokkrum vandræðum með engiferbita né annað gróft sem ég hef sett í hann og ég er ótrúlega ánægð með hann!

Græn orkubomba uppskrift
Uppskrift dugar í 2 glös
- 100 g spínat
- 200 g frosnir ávextir (mangó, ananas, papaya)
- 40 g ferskt engifer
- 200 ml ananassafi
- 2 bananar
- 1 msk. chiafræ
- 2 lúkur af klökum
- Setjið allt saman í blandarann og blandið þar til fallegur grænn og kekkjalaus drykkur hefur myndast.
- Hellið í glös og njótið!

Ekki skemmir síðan fyrir hvað þessi blandari er fallegur!