Litlir kjúklingaborgararKjúklingaborgari

Þessa kjúklingaborgara útbjuggu Finnur og Þórunn fyrir sameiginlegan bröns hjá vinahópnum okkar um páskana. Þórunn hafði séð svipaðar uppskriftir á netinu og blandaði þeim saman og bjó til sína eigin sem ég auðvitað bað hana að senda mér því hver einasti borgari hvarf af borðinu.

Við erum fjórar fjölskyldur sem hittumst reglulega í svona bröns og þá koma allir með eitthvað á hlaðborðið og hjálpast að við undirbúning, þannig verður þetta svo lítið mál þegar elda þarf ofan í 18 manns.

Við vorum með beikon, egg, pylsur, pönnsur, kjúklingaborgarana, boozt, ávexti og kökur. Okkur fannst við vera að gera allt of mikinn mat og hlógum af beikonmagninu (sem voru tvö risa fjöll) en börnin okkar eru mörg hver að detta í fullorðinna manna tölu svo þetta nánast kláraðist allt! Við munum því ekki hlæja af okkur næst, heldur bara kaupa enn meira beikon, hahaha!

Hér kemur annars aðferðin fyrir ykkur sem viljið útbúa þessa dásamlegu mini hamborgara.

Litlir kjúklingaborgarar uppskrift

Kjúklingurinn

 1. Kjúklingabringur eru klofnar í tvennt og aðeins barðar niður til að fletja þær betur út.
 2. Þeim er næst velt upp úr pískuðu eggi og því næst upp úr grófu brauðraspi með chili dufti, cumin kryddi og smá hveiti.
 3. Bakaðar í ofni við 190°C í um 20 mínútur eða þar til þær fara að gyllast.

Sósan

 1. Hellmann‘s majónes með söxuðu jalapeno og pressuðum hvítlauk eftir smekk. Kryddað til með salti og pipar.
 2. Hvítkál og rauðkál skorið niður í þunna strimla og velt upp úr majónessósunni og sett á milli með kjúklingnum sem búið er að skera í hæfilega stóra bita.
 3. Brauðin keypti hún í heildverslun en lítil brauð fást til dæmis í Krónunni og svo má að sjálfsögðu gera stærri hamborgara og skera niður í fjóra hluta fyrir svona veisluborð.

Það var sko ekkert að þessu! Ef ykkur vantar uppskrift af amerískum pönnukökum er ein góð hér.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun