Þessar sveppasneiðar urðu til þegar ég var að skoða alls konar hugmyndir með súrdeigi á netinu. Þar sá ég gómsæta sneið með sveppum og öðru á einum stað, fetaosti á öðrum og úr varð þessi samsetning með kotasælu sem var algjört dúndur. Það tekur enga stund að útbúa þær og þetta getur verið hádegismatur, snittur eða kvöldmatur sem þið munið elska!

Þessar sneiðar komu virkilega á óvart og voru dásamlegar í alla staði.

Súrdeigsbrauð með sveppum og kotasælu
6 litlar brauðsneiðar (fyrir 2-3 manns)
- 6 sneiðar af súrdeigsbrauði (snittubrauði)
- 200 g kotasæla (ein lítil dós)
- 100 g kastaníusveppir
- 150 g kjúklingabaunir
- Ólífuolía til steikingar
- Salt, pipar, hvítlauksduft, chilliduft
- Kóríander
- Skáskerið 6 sneiðar úr brauðinu og steikið upp úr ólífuolíu, leggið til hliðar.
- Skerið næst sveppina í sneiðar og steikið upp úr ólífuolíu, kryddið eftir smekk.
- Á meðan sveppirnir steikjast má setja kotasælu á hverja brauðsneið og síðan skipta sveppunum niður ofan á kotasæluna.
- Steikið að lokum kjúklingabaunirnar og kryddið eftir smekk, mér fannst gott að setja vel af chillidufti. Ef það kemur mikill safi á pönnuna af baununum er gott að hella honum af áður en þið kryddið endanlega til að þær nái aðeins að steikjast og fá stökka húð.
- Toppið með söxuðum kóríander.

Kotasæluna má nota á ýmsan hátt og er hún holl og góð!
