Mini vatnsdeigsbollur með Pippfyllingu⌑ Samstarf ⌑
fljótlegar bollur fyrir bolludaginn

Það var að koma nýr Royal búðingur á markað með Pippbragði! Ef hann er ekki fullkominn inn í vatnsdeigsbollur þá veit ég ekki hvað. Þessar fóru beinustu leið í kaffiboð hjá frænku minni og þar voru allir sammála um að þær væru algjörlega dásamlegar! Þær fá því 10 í einkunn og verða án efa endurteknar fyrir Bolludaginn.

vatnsdeigsbollur uppskrift

Það er síðan gaman að gera svona litlar og krúttlegar bollur, þessar eru bara einn til tveir munnbitar, nammi namm!

bolludagsbollur uppskrift

Mini vatnsdeigsbollur með Pippfyllingu

Um 30 stk

Vatnsdeigsbollur uppskrift

 • 150 g hveiti
 • 1 tsk. lyftiduft
 • ¼ tsk. salt
 • 140 g smjör
 • 270 ml vatn
 • 3 egg (130 g)
 1. Hitið ofninn í 180°C.
 2. Hrærið saman hveiti, lyftidufti og salti saman í skál og geymið.
 3. Hitið saman vatn og smjör í potti þar til smjörið er bráðið og blandan vel heit. Leyfið að bubbla aðeins og takið síðan af hellunni.
 4. Hellið hveitiblöndunni saman við smjörblönduna og hrærið/vefjið saman við með sleikju þar til allir kekkir eru horfnir og blandan losnar auðveldlega frá köntum pottsins.
 5. Flytjið blönduna yfir í hrærivélarskálina og hrærið á lægsta hraða með K-inu og leyfið hitanum þannig að rjúka aðeins úr blöndunni á meðan þið pískið eggin.
 6. Setjið eggjablönduna næst saman við í litlum skömmtum og skafið niður á milli. Athugið að nota aðeins 130 g af eggjunum. Egg eru misstór og því gott að vigta þetta til þess að deigið verði ekki of þunnt.
 7. Setjið bökunarpappír á ofnplötu og hver bolla má vera um ein teskeið.
 8. Bakið í 25-27 mínútur, bollurnar eiga að vera orðnar vel gylltar og botninn líka, ekki opna þó ofninn fyrr en eftir 25 mínútur til að kíkja undir eina. Helstu mistök sem fólk gerir er að baka bollurnar ekki nógu lengi og þá falla þær.

Pippfylling

 • 1 pk. Royal búðingur með Pipp bragði
 • 250 ml nýmjólk
 • 300 ml léttþeyttur rjómi
 • 80 g Pralín súkkulaði með piparmyntufyllingu frá Nóa Siríus
 1. Pískið búðingsduftið saman við mjólkina, setjið í kæli í um 10 mínútur og pískið reglulega í blöndunni á meðan.
 2. Vefjið léttþeytta rjómanum næst saman við búðinginn með sleikju.
 3. Saxið Pralín súkkulaðið smátt niður og vefjið varlega með sleikju saman við rjómablönduna.
 4. Skiptið niður á bollurnar og toppið með súkkulaðiglassúr (sjá uppskrift að neðan).

Súkkulaðiglassúr

 • 100 g brætt smjör
 • 200 g flórsykur
 • 3 msk. bökunarkakó
 • 3 tsk. vanilludropar
 • 3 msk. vatn
 1. Pískið allt saman í skál og smyrjið yfir bollurnar.
Royal pipp búðingur á bollurnar

Mmm þessi búðingur er virkilega góður og síðan er bara svo einfalt að skella í alla Royal búðinga og töfra fram eftirrétt á nokkrum mínútum.

bollur fyrir bolludaginn

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun