Ég og við reyndar öll hér í fjölskyldunni elskum bragðaref! Það er fátt betra á kósýkvöldum en það að útbúa sjeik, sækja sér bragðaref eða eitthvað í þeim dúr. Að útbúa bragðaref heima er síðan algjör snilld, ég tala nú síðan ekki um hvað það er margfalt ódýrara en að kíkja í ísbúðina!

Þessi hérna var alveg svaaaaaaaaaaaaaakalega góður!

Ég á alltaf smá erfitt með of stóra frosna jarðarberjabita svo mér finnst best að stappa jarðarberin. Síðan vill ég alltaf saxa nammið frekar smátt og þessu öllu er auðvitað miklu betra að stýra heiman frá sér, hahaha!

Pandarefur uppskrift
2-3 glös eftir stærð
- 1 ½ l vanilluís
- 150 g jarðarber
- 70 g Pandakúlur með jarðarberjabragði
- 70 g Pandakúlur með saltkaramellubragði
- 40 g karamellukurl frá Nóa Siríus
- 4 msk. þykk karamellusósa
- Skerið eða stappið niður jarðarberin og saxið Pandakúlurnar smátt niður.
- Setjið ísinn í hrærivélina og hrærið á lágum hraða með K-inu.
- Bætið jarðarberjum, söxuðum Pandakúlum og karamellukurli saman við.
- Slökkvið þá á hrærivélinni, bætið karamellusósunni létt saman við með sleikju (ég keypti tilbúna heita karamellusósu en hitaði hana ekki, sprautaði bara beint úr flöskunni).
- Skiptið niður í glös, toppið með smá Pandakúlum, karamellusósu, karamellukurli og njótið.
- Það má einnig setja blönduna í skál og geyma í frysti í 1-2 klukkustundir áður en þið njótið. Ef þið gerið það er sniðugt að hræra nokkrum sinnum í blöndunni á meðan til að hún haldist „mjúk“ en samt frosin.

Panda lakkrískúlurnar passa svakalega vel í bragðaref, lakkrísinn helst mjúkur og það kemur gott kröns af kúlunum.

Nammi, nammi, namm! Nú hvet ég ykkur til þess að útbúa þessa dásemd fyrir næsta kósýkvöld! Ég veit fyrir víst að þetta verður næsta æðið hjá okkur fjölskyldunni.