Afmæli með kisuívafi



Þegar lítil dama verður fjögurra ára gömul og biður mömmu sína að hafa bleikt afmæli, gerist svona á þessu heimili, hahaha! Ég var nú reyndar alls ekki viss um hvort af afmæli yrði þar sem Covid fór að stríða okkur í miðjum undirbúningi.

Ég ákvað hins vegar að halda afmæli fyrir elsku litlu Huldu Sif mína en með mun færri gestum en venjulega og þessum fáu gestum var skipt niður í þrjú hólf! Ég var búin að kaupa sótthreinsiklúta, fullt af spritti og fór á milli holla eins og stormsveipur að sótthreinsa sameiginlega fleti, haha! Pínu bras en mér leið að minnsta kosti betur og var öruggari með þetta allt saman, vonum svo að ári geti allir fengið að koma á sama tíma og hittast, spjalla og knúsast!

Um helgina kom smá umfjöllun um afmælisveisluna í Fréttablaðinu og nú kemur hún hér fyrir ykkur að njóta!

Ég ELSKA að undirbúa og gera skemmtilegar veislur. Ég var því alveg komin í spreng með sköpunargleðina eftir yfir heilt ár í engu veislustússi. Ég fór því alveg „All-in“ þó svo gestirnir yrðu ekki margir. Mig langaði það bara svo mikið, hahaha! Auðvitað var ég með allt of mikið af öllu sökum þess en gestir voru sendir heim með smá nesti og nágrannar fengu að njóta góðs af afgöngum svo ekkert fór til spillis.

Þetta kisuþema byrjaði á því að ég sá ofurkrúttlega kisudiska í vefverslun Allt í köku. Ég fór síðan þangað í heimsókn og almáttugur minn, ÚRVALIÐ! Ég hefði sirka getað skipt hundrað sinnum um skoðun og valið eitthvað allt annað því það er svo margt fallegt til þar. Kisuþemað var hins vegar samþykkt af dúllunni minni og hún veit alveg hvað hún vill svo ég gekk um búðina og tíndi til alls kyns fallegheit í stíl við það.

Það er svo gaman að raða saman fallegu afmælisdóti og síðan er blöðruskreytingin sem nær yfir allt borðið algjör snilld! Það var svo gaman að prófa þetta og þetta verður án efa gert aftur síðar. Það er ekkert mál að raða blöðrum upp á plastborða með götum sem fylgir með en það þarf bara að gefa sér smá tíma í að blása blöðrurnar upp. Við gerðum það allt kvöldinu áður svo og þær voru enn mjög fallegar næsta dag svo ég mæli klárlega með því til að vera ekki í stressi samdægurs. Það er gaman að leyfa þeim aðeins að hanga fram af borðinu beggja megin og síðan má leika sér með liti og stærðir.

Litaþemað var bleikt, hvítt, gyllt og svart og kom það virkilega skemmtilega út að mínu mati.

Ég var með plexistand frá Fást á miðju borðinu þar sem ég setti kisuköku efst og raðaði síðan alls kyns sætindum á hæðirnar. Hægt er að kaupa þessa standa hjá þeim snillingum en einnig er í boði að leigja þá hér á síðunni.

Kisukaka, uppskrift og aðferð.

Það er að ýmsu að huga þegar kemur að barnaafmæli og fyrir utan kisukökuna var boðið upp á ýmsar aðrar veitingar sem fylgja hér á eftir. Það má ekki gleyma því að hafa eitthvað matarkyns svo allir geti fengið sér slíkt áður en farið er í sætindin. Veislan var síðdegis á mánudegi og allir að koma svangir beint úr vinnu eða skóla. Það er mikið gott að geta úthýst ákveðnum hluta af veitingum, sumir kjósa að panta allar kökur og gera mat sjálf en þar sem ég elska að dúllast í kökuskreytingum finnst mér gaman að sjá um það og panta mat eða fá vini og ættingja til að sjá um slíkt.

Að þessu sinni pöntuðum við samlokur og djúsa hjá Lemon og almáttugur minn hvað það var mikil snilld! Þessu var keyrt hingað heim rétt fyrir afmæli svo eina sem ég þurfti að gera var að raða þessu á eyjuna og merkja hvað væri hvað. Ég tilgreindi fjölda barna vs fullorðinna og þau útbjuggu einfaldar barnasamlokur með skinku og osti sem krakkarnir elskuðu.

Ég DÝRKA Dons Donuts og þrátt fyrir að vera með alls kyns sætindi mátti ég til með að panta nokkra slíka kleinuhringi líka. Það er nefnilega hægt að fá sósur og nammi í boxum, hita hringina aðeins upp í ofninum og síðan getur hver og einn sett á sína það sem hann óskar, NAMM!

Það er alltaf gaman að hafa eitthvað óvænt fyrir krakkana og eins og svo oft áður þá pantaði ég andlitsmálun hjá Andlitsmálun Ingunnar en hún er alveg ótrúlega fær í sínu starfi. Það sem er síðan svo frábært er að allir krakkar fá númer svo þau viti hvenær kemur að sér og síðan bíða þau öll og fylgjast með. Það má því spyrja sig hvort maður sé í raun í barnaafmæli um stund, svo rólegt verður á meðan Ingunn er í húsi. Síðan koma allir fram ánægðir og montnir með fallegu andlitsmálunina sína.

Afmælisstelpan mín (sem skipti mörgum sinnum um föt í afmælinu, hahaha) svaf sko með sína förðun og fór með hana í leikskólann daginn eftir því henni fannst þetta svo fallegt, litla dúllan!

hrískökupinnar

Hrískökupinnar eru algjör snilld í barnaafmælið! Ég sjálf elska reyndar hrískökur svo mér fannst alls ekki leiðinlegt að útbúa þessa dásemd. Uppskrift finnið þið hér á blogginu.

Barnaafmæli hugmyndir

Kökuskilti frá Hutprent stakk ég ofan í miðja hrúgu af hrískökupinnum og síðan einnig litlum kisukertum sem ég fékk í Allt í köku.

kökupinnar

Kökupinnar eru eitt það besta sem ég fæ svo það er nauðsynlegt að dúllast stundum og útbúa slíka. Hægt er að rúlla og frysta kúlurnar með góðum fyrirvara og dýfa síðan og skreyta nokkrum dögum áður og geyma í kæli.

Nammibar í veislu

Nammibar er sívinsæll en sökum Covid útbjó ég margar litlar krúsir með nammi í stað þess að allir væru að skammta sér sjálfir með sömu skeiðunum, það kom virkilega vel út! Stelpurnar mínar elska bleikt Skalle og því valdi ég það að sjálfsögðu ásamt öðru sælgæti sem var í stíl við þemað. Ég setti jarðarberjahlaup, krítar (Skolekridt), lakkrís með jarðarberjafyllingu, Skalle (stórt og lítið) og bleika Geisha mola en þeir eru guðdómlegir með heslihnetufyllingu.

Bollakaka í barnaafmæli

Súkkulaði bollakökur standa alltaf fyrir sínu!

Enginn komst síðan fram hjá sprittstöðinni í forstofunni og síðan voru að sjálfsögðu spritt á hverju borði! Sprittin frá Homie eru í svo fallegum flöskum að mér finnast þau í raun bara eins og stofustáss en ekki „apóteksvara“ svo þau sóma sér sannarlega vel á veisluborðinu!

Kökustandar

Ég er alltaf með ákveðnar veitingar á afmælisborðinu sjálfu og þar reyni ég að hafa allt í stíl við þemað. Á eyjunni eru síðan aðrar veitingar, oft kallaðar „fullorðinsveitingarnar“ þó svo börn og fullorðnir fái sér að sjálfsögðu af báðum borðum. Til að taka saman hér í lokin það sem var boðið upp á kemur hér listi fyrir ykkur til að fá hugmyndir.

Boðið var upp á eftirfarandi

Mikið sem þetta var gaman en ég ætla alveg að viðurkenna það er MIKIL vinna að gera svona afmæli. Ég gerði varla neitt annað heila helgi en undirbúa, baka, skreyta og dúllast í kringum þetta. Því mæli ég alltaf með því að skipuleggja svona í tíma, velja þema, fá allt í hús, skreyta það sem er hægt að dúllast í (t.d krukkur, glös o.þ.h) með fyrirvara. Það er líka gott að baka alla kökubotna í tíma svo aðeins eigi eftir að raða saman og skreyta. Ég er venjulega mjög vel lundirbúin en núna ákváðum við á síðustu stundu að hafa afmæli sökum Covid og ég fann alveg muninn, að baka, sækja og velja dót um allan bæ allt á þremur dögum er svaka bras, hahaha! Þetta hafðist nú samt allt á endanum og vonandi gefur þessi færsla ykkur góðar hugmydnir fyrir komandi veislur!

Dons Donuts kleinuhringir í afmæli

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun