
Ef þessi kaka færir okkur sumarið þá veit ég ekki hvað! Hún er björt og sumarleg, bæði í útliti og á bragðið. Ég varð að leyfa mér að nota enskt heiti á þessa uppskrift því Ástríðuávaxtar pavlova hljómaði bara alls ekki eins vel og „Passion Fruit Pavlova“, hahaha!

Það er svo gaman að prófa sig áfram í Pavlovugerð og líka gaman hvernig maður skiptir um gír á milli árstíða.

Þessi dásemd á sko sannarlega vel við á næstu mánuðum og vonum hún muni færa okkur sól og sumaryl!

Passion Fruit Pavlova
Marengs uppskrift
- 6 eggjahvítur
- 350 g sykur
- 1 tsk. kartöflumjöl
- 2 tsk. hvítvínsedik
- Hitið ofninn í 110°C og teiknið um 20 cm hring í þvermál á bökunarpappír.
- Þeytið eggjahvíturnar á miðlungshraða þar til þær rétt byrja að freyða.
- Bætið þá sykrinum saman við í litlum skömmtum, um 2 matskeiðar í senn og hrærið í um 30 sekúndur á milli áður en þið bætið meiru við.
- Best er að þeyta allan tímann á miðlungsstillingu til að varast að ofþeyta marengsinn (ég notaði stillingu 4-5 á Kitchen Aid vélinni).
- Þegar allur sykur er uppleystur má hræra saman kartöflumjöl og edik og hella því saman við, þeyta á hæstu stillingu í um 30 sekúndur.
- Setjið blönduna inn í hringinn á bökunarpappírnum, á bökunarplötu og reynið að jafna blönduna vel innan hringsins og gott er að hafa háa kanta. Hafa marengsblönduna lárétta ofan á og lóðrétta á hliðunum.
- Síðan er fallegt að draga kökuspaða beint upp eftir hliðunum til að fá fallegt mynstur í marengsinn.
- Bakið í 90 mínútur, slökkvið þá á hitanum og leyfið að kólna með ofninum.
Fylling og skraut
- 500 ml rjómi
- 1 vanillustöng
- ½ krukka St.Dalfour Mango & Passion Fruit sulta
- 2-3 Passion fruit ávextir
- Fersk blóm
- Þeytið saman rjóma og fræ úr einni vanillustöng.
- Vefjið sultunni saman við og smyrjið yfir marengsinn.
- Skreytið með ferskum Passion Fruit og ferskum blómum.

Þessi sulta er alveg guðdómleg, hvort sem það er út á jógúrt, ofan á brauðið, með ostunum, nú eða í baksturinn!
