
Það er fátt betra en púðursykurs pavlova og rjómi með karamellufyllingu! Ég elska marengs og pavlovur í öllum stærðum og gerðum og finnið þið ógrynni af slíkum uppskriftum hér á blogginu. Hér kemur ein undurljúffeng fyrir ykkur að prófa!

Það góða við að gera litlar pavlovur er að hver og einn getur átt sína köku alveg í friði, hahaha!

Ég er mikið fyrir púðursykursmarengs með rjóma og mismunandi fyllingum. Hér er ég búin að þeyta rjóma, saxa Dumle súkkulaðistykki með mjúkri karamellu og setja ofan á marengsinn og síðan hella smá súkkulaðisósu yfir allt í lokin, namm!

Karamelludraumur uppskrift
16-18 stykki eftir stærð
Marengs
- 4 eggjahvítur
- 270 g púðursykur
- Hitið ofninn í 110°C.
- Þeytið eggjahvíturnar þar til þær fara aðeins að freyða.
- Bætið þá sykrinum saman við í nokkrum skömmtum og skafið niður á milli.
- Þegar marengsinn er stífþeyttur má færa hann yfir í sprautupoka/zip-lock poka og sprauta litlar bústnar marengskökur á bökunarplötu íklædda bökunarpappír.
- Takið því næst skeið og mokið aðeins upp úr miðjunni á hverri köku með bakhliðinni á skeiðinni til að búa til pláss fyrir rjómann.
- Bakið í 70 mínútur og leyfið að kólna inn í ofninum í að minnsta kosti klukkustund áður en þið takið út.
Fylling
- 600 ml rjómi
- 150 g Dumle súkkulaðistykki ( 1 ½ 100 g plata)
- Þeytið rjómann og saxið súkkulaðið niður.
- Vefjið súkkulaðinu varlega saman við þeyttan rjómann með sleif og setjið síðan rjómablöndu á hverja marengsköku.
Skraut
- 50 g dökkt súkkulaði
- 50 ml rjómi
- 100 g saxað Dumle súkkulaðistykki
- Fersk blóm (má sleppa)
- Saxið súkkulaðið smátt og hitið rjómann að suðu.
- Hellið rjómanum yfir súkkulaðið og pískið saman þar til slétt súkkulaðisósa myndast.
- Dreifið súkkulaðisósu yfir rjómann og að lokum söxuðu Dumle súkkulaði og blómum sé þess óskað.

Þetta súkkulaði…..OMG sko! Það er rugl gott!
