
Pönnukökur eru klassískur, fallegur og bragðgóður sætur réttur, hvort sem þær eru hluti af hlaðborði, með helgarkaffinu eða sem eftirréttur. Margir eiga það til að gleyma elsku bestu pönnukökunum í öllum þeim nýju og spennandi uppskriftum sem eru alltaf í gangi. Það má auðvitað ekki og því ákvað ég að setja þessa einföldu pönnukökuuppskrift hingað inn til þess að minna á þetta dálæti.

Klassískar pönnukökur uppskrift
- 330 g hveiti
- 1 tsk. lyftiduft
- 1 tsk. matarsódi
- 30 g sykur
- ½ tsk. salt
- 3 egg
- 120 g brætt smjör
- 700 ml mjólk
- 1 glas vanilludropar (30 ml)
- Setjið hveiti, lyftiduft, matarsóda, sykur og salt í skál og blandið saman.
- Hellið um helmingnum af mjólkinni saman við og hrærið þar til kekkjalaust, þykkt deig hefur myndast.
- Setjið þá restina af mjólkinni, eggin, brætt smjörið og vanilludropana saman við, skafið vel niður hliðarnar og botninn þar til slétt og fremur þunnt deig hefur myndast.
- Bakið pönnukökur á fremur háum hita og setjið örlítið smjör á pönnuna reglulega.
- Uppskriftin gefur um 20 pönnukökur.
