
Það er eitthvað við heita brauðrétti sem allir elska! Í afmælum og veislum slá slíkir réttir alltaf í gegn og mér finnst mikilvægt að gera nóg af slíkum því þeir eru fljótir að fara. Þessi hér er djúsí og bragðgóður með beikoni sem ég mæli sannarlega með að þið prófið fyrir næstu veislu, nú eða bara fyrir helgarkaffið!

Beikonbrauðréttur uppskrift
- 200 g beikonkurl
- 200 g sveppir
- 1 stk blaðlaukur
- 1 x smurostur með beikoni frá MS
- 500 ml rjómi
- 150 g skinka
- 9 fransbrauðssneiðar
- Rifinn ostur
- Salt og pipar eftir smekk
- Smjör til steikingar
- Steikið beikonkurlið í ofni/á pönnu þar til það er stökkt, leggið á pappír og geymið.
- Skerið niður sveppi og blaðlauk, steikið upp úr smjöri og kryddið til með salti og pipar.
- Hellið rjóma og beikonosti saman við og hrærið þar til osturinn er uppleystur, skerið niður skinkuna og bætið henni út í.
- Skerið skorpuna af fransbrauðssneiðunum, smyrjið eldfast mót vel að innan og raðið réttinum saman.
- Setjið 3 x fransbrauðssneiðar í botninn og um 1/3 af ostablöndunni yfir og endurtakið tvisvar sinnum í viðbót. Efst má síðan strá beikonkurlinu og rífa vel af osti yfir allt saman.
- Hitið í 180°C heitum ofni í um 25 mínútur eða þar til osturinn fer að gyllast.

Uppskriftin kemur úr bókinni minni Saumaklúbburinn en í henni er ógrynni af ljúffengum uppskriftum!
