KisukakaHulda Sif, yngsta dúllan mín varð 4 ára gömul um daginn og þá útbjuggum við þessa krúttlegu kisuköku fyrir hana. Kakan var sett efst á kökustand og síðan ýmsum sætindum raðað á aðrar hæðir standsins.

Kisukaka uppskrift

Súkkulaðibotnar

 • 240 g hveiti
 • 350 g sykur
 • 90 g bökunarkakó
 • 2 tsk. matarsódi
 • 1 tsk. salt
 • 250 ml súrmjólk
 • 150 ml matarolía
 • 4 egg
 • 250 ml heitt vatn
 • 1 tsk. vanilludropar
 1. Hitið ofninn í 170°C.
 2. Hrærið saman öllum þurrefnum í eina skál og leggið til hliðar.
 3. Pískið eggin og blandið súrmjólk, olíu, vanilludropum og vatni saman við.
 4. Hellið vökvanum varlega saman við þurrefnin, hrærið og skafið niður á milli (deigið er þunnt).
 5. Takið til 4 x 15 cm smelluform, setjið bökunarpappír í botninn og spreyið vel með matarolíuspreyi.
 6. Skiptið deiginu jafnt á milli formanna og bakið í um 25-35 mínútur eða þar til prjónn kemur út með smá kökumylsnu á en ekki blautu deigi.
 7. Kælið alveg og skerið svo ofan af botnunum svo þeir verði alveg sléttir og kælið þá.

Krem á milli

 • 125 g smjör við stofuhita
 • 3 msk. bökunarkakó
 • 2 tsk. vanilludropar
 • 3 msk. hlynsýróp
 • 3 msk. rjómi
 • 400 g flórsykur
 1. Þeytið smjörið stutta stund.
 2. Bætið öðrum hráefnum saman við smjörið til skiptis, skafið niður á milli og hrærið vel.
 3. Þegar létt og þétt krem hefur myndast má smyrja því á milli botnanna og raða kökunni saman fyrir hjúp.

Krem í hjúp og skreytingu

 • 250 g smjör við stofuhita
 • 2 tsk. vanillusykur
 • 100 ml rjómi
 • 900 g flórsykur
 1. Þeytið smjörið stutta stund.
 2. Bætið öðrum hráefnum saman við til skiptis, skafið niður á milli og þeytið þar til létt og ljóst.
 3. Smyrjið fyrst þunnu lagi yfir allt til að hjúpa kökuna, geymið í kæli í um 30 mínútur.
 4. Litið hluta af kreminu í þeim tónum sem þið ætlið að skreyta með og setjið í sprautupoka og geymið.
 5. Hjúpið kökuna að nýju með hvítu kremi, nú um ½ cm þykkt lag allan hringinn (notið smá litað krem ef þið viljið draga lit í eins og er gert neðarlega á þessari köku) og skreytið að vild. Hér eru sprautaðar rósir og stjörnur í mismundi gerðum og skreytt með kökuskrauti.

Annað skraut og samsetning

 • Svartur matarlitur og duft matarlitir
 • Sykurmassaskraut (hér stjörnur og eyru búin til úr slíku)
 • Kökuskraut, kerti og pinnar.
 1. Útbúið eyru og stjörnur, leyfið því að storkna yfir nótt og litið síðan með duftmatarlitum.
 2. Teiknið augu, munn og veiðihár með fínum pensli og matarlit.
 3. Setjið síðan smá krem á hverja stjörnu áður en þið festið þær á hliðarnar.

Hægt er að lesa nánar um þessa afmælisveislu hér á blogginu!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun