
Hrískökur eru eitt það allra vinsælasta í veislum, hvort sem þær eru í litlum formum, hluti af stærri köku, jafnvel í kransaköku eða hvað eina! Ég hef áður gert hrískökupinna og sett hingað inn og að þessu sinni prófaði ég að bæta lakkrís saman við og það kom mjög skemmtilega út.

Hrískökupinnar uppskrift
- 100 g smjör
- 200 g hjúpsúkkulaði
- 200 g suðusúkkulaði
- 1 dós Lyle‘s sýróp (454 g)
- 150 g lakkrískurl
- 350 g Rice Krispies
- Íspinnaprik
- Kökuskraut og hjúpsúkkulaði að eigin vali til skrauts.
- Setjið smjör, báðar tegundir af súkkulaði og sýróp í pott og bræðið saman við meðalháan hita.
- Leyfið blöndunni að „bubbla“ í 1-2 mínútur í lokin, takið af hellunni og blandið Rice Krispies og lakkrískurli saman við í nokkrum skömmtum.
- Setjið bökunarpappír í ofnskúffu og dreifið úr blöndunni á plötuna. Hún má fylla alveg út í hana á breiddina en kannski ekki nema helminginn af hæðinni. Stærðin má þó vera alla vega á pinnunum svo þið ráðið þessu í raun.
- Ég þjappa alltaf vel með annarri bökunarplötu ofan á (passið að leggja bökunarpappír á blönduna fyrst) og síðan þjappa ég þessu líka saman með fingrunum svo allt sé vel þétt í sér og nokkuð jafnt og ferkantað.
- Þá er að stinga íspinnaprikunum í blönduna með jöfnu millibili sitthvoru megin, þjappa vel að og kæla í um klukkustund.
- Næst má skera blönduna í sundur eftir miðjunni og síðan á milli íspinnaprikanna sitthvoru megin.
- Að lokum má síðan skreyta pinnana með því sem hugurinn girnist. Ég bræddi hér bæði hvítt og bleikt Candy Melts, setti í poka og klippti lítið gat á endann til að sprauta mynstur.
- Síðan setti ég kökuskraut og smá kökuglimmer yfir, raðaði á bökunarpappír á bakka, setti plastpoka yfir og geymdi í kæli fram að veisluhöldum.

Ég raðaði þeim bæði á stóran plexistand þar sem þeir voru hluti af öðrum veitingum í barnaafmæli ásamt því að setja þá á sér kökudisk með fallegu afmælisskilti frá Hlutprent og kisukertum frá Allt í köku.