
Sagógrón er hráefni sem ég hef aldrei prófað áður ef ég á að vera alveg hreinskilin! Ég las mér til um þau og oft eru þau notuð í svipaða grauta og við þekkjum grjónagraut úr venjulegum hrísgrjónum. Ég rakst líka á fleiri skemmtilegar hugmyndir og að sjóða grjónin upp úr kókosrjóma og toppa með mangó heillaði mest. Ég ákvað því að láta á reyna og úr varð þessi sumarlegi og dásamlegi dessert.

Sagódessert með mangó
Sagógrautur uppskrift
- 150 g Til hamingju sagógrjón
- 250 ml vatn
- 500 ml kókosrjómi
- 100 g sykur
- Blandið öllu nema sykri saman í pott og leyfið að standa í um 30 mínútur áður en þið kveikið á hitanum.
- Hitið næst að suðu, lækkið hitann vel niður og leyfið að malla í 5-10 mínútur og hrærið mjög reglulega í allan tímann.
- Þið getið smakkað grjónin til en þau eru tilbúin þegar þau eru orðin glær á litinn.
- Þá má taka grautinn af hellunni og hræra sykrinum saman við.
- Skiptið niður í 6-8 glös og kælið.
Mangótoppur
- 1 stórt þroskað mangó
- Hlynsýróp
- Kókosflögur
- Mynta (til skrauts)
- Skerið mangó í litla bita og skiptið á milli glasanna.
- Sprautið um einni matskeið af sýrópi yfir og stráið loks kókosflögum og skreytið með myntu.

Já þessi grjón leyna sannarlega á sér og ég mun án efa prófa fleiri uppskriftir með þeim á næstunni. Þessi uppskrift minnti mig á „Sticky Mango Rice“ síðan í Tælandi og þið megið endilega senda mér hugmyndir ef þið hafið fyrir þetta hráefni!

Mangó er svo gott en það þarf að vera þroskað og mjúkt til að vera gott finnst mér, án þess þó að vera orðið ofþroskað!
