Sour Patch Kids regnbogakaka⌑ Samstarf ⌑
Multicolored cake recipe

Já krakkar mínir, hér kemur sko ein litrík og ljúffeng! Stelpurnar mínar ELSKA Sour Patch Kids nammið og stukku hæð sína þegar það kom til Íslands eftir að hafa keypt það reglulega þegar við bjuggum í Bandaríkjunum.

Regnbogakaka uppskrift

Hér er á ferðinni klassísk vanillu kaka og ég notaði grunnuppskrift af vanillu köku frá Courney sem er með Cake By Courtney og er ein mín uppáhalds! Síðan lék ég mér að lita deigið og dúllast aðeins í þessu til að úr yrði regnbogakaka í stíl við hlaupkarlana.

Sour patch candycake

Þessa köku ættu allir að ráða við að gera og því get ég lofað að börn munu hoppa hæð sína þegar þau sjá hana!

rainbow cake with sour patch

Sour Patch Kids regnbogakaka

Botnar

 • 430 g hveiti
 • 1 msk. lyftiduft
 • 1 tsk. salt
 • 280 g smjör við stofuhita
 • 440 g sykur
 • 7 eggjahvítur við stofuhita
 • 1 msk. vanilludropar
 • 300 ml „Buttermilk“ (kreistið 1 matskeið af sítrónusafa í nýmjólk)
 • 150 g sýrður rjómi við stofuhita
 1. Hitið ofninn í 170°C og takið til 5 x 15 cm kökuform. Klippið smjörpappír í botninn og spreyjið vel með matarolíuspreyji að innan.
 2. Blandi hveiti, lyftidufti og salti saman í skál, geymið.
 3. Þeytið saman smjör og sykur þar til létt og ljóst.
 4. Bætið þá eggjahvítunum saman við, í nokkrum hlutum og skafið niður á milli.
 5. Næst fara vanilludroparnir saman við og síðan hveitiblandan og „buttermilk“ til skiptis. Hrærið á lágum hraða og skafið síðan niður og blandið í nokkrar sekúndur aftur.
 6. Blandið að lokum sýrða rjómanum varlega saman við.
 7. Skiptið deiginu niður í 5 skálar og litið með gulu, appelsínugulu, rauðu, grænu og bláu.
 8. Setjið í formin og bakið í um 25-30 mínútur eða þar til prjónn kemur hreinn út.
 9. Kælið áður en þið útbúið kremið og setjið kökuna saman.

Krem og skreyting

 • 300 g smjör við stofuhita
 • 950 g flórsykur
 • 220 ml rjómi
 • ¼ tsk. salt
 • 3 tsk. vanilludropar
 • 6-7 pokar Sour Patch Kids hlaup
 • Marglitað kökuskraut
 1. Þeytið smjörið þar til létt.
 2. Bætið þá flórsykri og rjóma saman við til skiptis, skafið niður á milli og þeytið vel.
 3. Setjið að lokum salt og vanilludropa saman við og þeytið aðeins til viðbótar.
 4. Setjið um 5 matskeiðar af kremi í senn í skál og litið í sama lit og botnarnir.
 5. Ég byrjaði á bláa botninum og setti bláa kremið ofan á, gott er að kremið sé um 1 cm að þykkt.
 6. Síðan má setja græna ofan á, gera grænt krem og þannig koll af kolli.
 7. Að lokum fer guli botninn ofan á og þá má lita alla restina af kreminu gult og grunnhjúpa kökuna með þunnu lagi af kremi.
 8. Eftir um 30 mínútur má síðan setja næsta lag af kremi á kökuna og gott að hafa það um ½-1 cm á þykkt. Sléttið hliðarnar og toppinn eftir fremsta megni og raðið síðan Sour Patch Kids hlaupi á hliðarnar eins og myndin sýnir. Alltaf tveir og tveir eins, hlið við hlið og vinnið þetta lóðrétt, alltaf ein lína alveg upp.
 9. Síðan rúlla litirnir alltaf niður þannig að „ombre“ mynstur komi á hlaupkarlana.
 10. Þegar búið er að þekja kökuna með Sour Patch Kids má setja restina af kreminu í sprautupoka með stórum stjörnustút (ég notaði 2 D frá Wilton).
 11. Sprautið 8 jafna toppa ofan á kökuna við kantana, stráið kökuskrauti ofan á þá og í miðjuna og setjið Sour Patch Kids hlaupkarla á milli toppanna. Einnig er hægt að raða hlaupkörlunum fyrst og sprauta síðan toppana og skreyta með kökuskrautinu.
sour patch in a cake

Þetta er í rauninni bara vanillu kaka með vanillu kremi, lituð í öllum regnbogans litum og skreytt með þessu krúttlega og litríka hlaupi.

Sour patch kids cake

Það þarf bara smá þolinmæði til að raða þessu allan hringinn, ekki annað!

Rainbow color cake

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun