Á dögunum fórum við hjónin ásamt vinahjónum okkar í vikulanga skíðaferð til Austurríkis. Við Hemmi höfðum fram að þessu ekki farið í formlega skíðaferð sem þessa fyrir utan að hafa aðeins skíðað með stelpurnar okkar í Bandaríkjunum þegar við bjuggum þar. Allir í kringum okkur hafa rómað þessar ferðir og sagt að þegar þú værir búin/n að prófa, væri ekki aftur snúið og þetta bestu fríin sem hægt væri að hugsa sér. Það er sannarlega hægt að taka undir það og þetta allt öðruvísi frí heldur en mörg önnur. Það snýst allt um að vakna snemma, koma sér í brekkurnar sem fyrst áður en færið spillist og síðan njóta í mat, drykk og slökun þegar líður á daginn.

Við vorum kannski full dugleg á skíðunum og vorum oft rétt að ná síðustu lyftunum til að komast aftur heima á hótel í lok dags og ég ætla alveg að viðurkenna að þrátt fyrir að vera í fínasta formi þá tók þetta alveg á, hahaha! Kannski er fólk að vinna meira með að hætta að skíða um miðjan dag og hugsa ég reyndar að við höfum það að leiðarljósi í næstu ferð. Að setjast niður í síðdegisdrykk, fara í spa-ið og góðan kvöldverð eftir langan skíðadag er síðan klárlega lúxus alla daga í heila viku.
Hér fyrir ofan getið þið séð stutt myndband hvernig típískur dagur í Ölpunum lítur út!

Sér austurrískir réttir voru mikið á boðstólnum þegar við borðuðum í hádeginu í fjallinu. Við hlógum oftar en ekki þegar diskarnir komu á borðin og höfðum gaman af því að smakka alls konar rétti.

Mig langar að mæla með Rosswaldhütte og Sonnalm fyrir næs veitingastaði með gott útisvæði. Síðan prófuðum við líka Reiter Alm og Alte Schmiede og þar var alveg ekta austurrísk stemming en ég fílaði hina tvo samt betur. Hendl Fischerei var samt án efa lang flottasti staðurinn sem við heimsóttum í hádeginu. Maturinn, aðstaðan og þjónustan öll til fyrirmyndar en ég myndi mæla með að panta borð þar því það var mikið að gera!

Gott er að setjast niður eftir matinn á kvöldin og leggja drög að leiðangri næsta dags eins og við gerðum öll kvöld og fara síðan snemma í háttinn, enda er maður þreyttur eftir daginn og útiveruna.

Við skoðuðum alls konar skíðasvæði, bæði á Ítalíu og í Austurríki áður en við bókuðum. Saalbach Hinterglemm svæðið heillaði okkur og við ákváðum að fara þangað í þessari jómfrúarferð. Svæðið er stórt og með óteljandi brekkur. Við skíðuðum nánast alls staðar, völdum okkur hluta af svæðinu á hverjum degi til að kemba aðeins og fengum því góða innsýn inn í svæðið. Uppáhalds svæðið okkar var Leogang og svæðið innst í Hinterglemm. Miðjan í Saalbach var með mesta troðninginn og flest fólk í brekkunum en engu að síður frábærar brekkur að finna um allt á þessu svæði.

Við völdum okkur hótel þar sem var stutt að ganga í skíðalyftuna og síðan hægt að skíða heim í lok dags. Fyrir valinu varð Haus Jausern sem er nýtt fjölskyldurekið hótel í Vorderglemm.

Hótelið er nýtískulegt, notalegt og þau fjölskyldan öll yndisleg. Þau stóðu vaktina sjálf ásamt dásamlegu starfsfólki og okkur leið strax eins og við værum heima hjá okkur. Herbergin og allur aðbúnaður til fyrirmyndar og maturinn, maður minn, hann var æðislegur!

Lilly og Christoph byggðu við hótel sem var þar fyrir og foreldrar Lillyar höfðu rekið um árabil. Það er síðan svo fallegt að sjá hvernig þau varðveita hluta af eldra húsinu inn í því nýja á virðingarverðan hátt.

Morgunverðarhlaðborð á hverjum morgni og fjögurra rétta kvöldmáltíð beið okkar á hverju kvöldi, það er sannarlega ekki hægt að kvarta yfir slíku lúxuslífi.

Herbergin eru nýtískuleg og spa-ið æðislegt. Ég veit reyndar ekki með það að vera nakin í gufubaði með fullt af fólki svo við vorum meira að vinna með hvíldarherbergið, hahahaha!

Allt svo fallegt og notalegt!

Vinir okkar voru síðan staðsettir í Zell am See á sama tíma og við vorum í Saalbach og Kalli vinur okkar bauð í afmælispartý yfir í næsta fjallgarð. Við fórum því í leiðangur þangað yfir einn daginn og það var gaman að sjá það skíðasvæði líka.

Að sjá yfir vatnið þaðan var stórkostlegt, brekkurnar fínar en lyfturnar aðeins eldri ein hinumegin, það líklega það eina sem var hægt að setja út á það svæði en í heildina leit það allt mjög vel út. Eins og Henný vinkona orðaði það, aðeins meira sveitó en Saalbach og ég held það lýsi því svæði bara mjög vel.

Í Zell am See er flottur skáli nokkuð ofarlega í fjallinu sem heitir Panorama Restaurant þar sem er bæði veitingastaður, bar og síðan stórt opið rými þar sem fólk getur gengið á milli matarbása, pantað mismunandi veitingar fyrir alla í hópnum, sett á bakka og síðan sest saman frammi í skálanum.

Efst í fjallinu í Zell am See er síðan flottur staður þar sem mikil stemming myndaðist á Aprés Ski með Dj og svaka fjöri!

Það var búið að loka lyftunum og að koma myrkur þegar við skíðuðum niður eftir skemmtilegan dag í Zell am See svo við tókum leigubíl yfir á hótelið okkar og við tók enn eitt lúxuskvöldið og notalegheitin.

Allir drykkir á hótelinu okkar voru svo fallegir og góðir!
Þegar heim er komið er síðan fátt dásamlegra en að vita að bíllinn sé búinn að vera í góðu yfirlæti og þrifum. Þegar maður býr á Íslandi er þetta líklega eitt það besta sem hægt er að hugsa sér, fá hreinan og heitan bíl afhentan upp að dyrum í flugstöðinni. Park4u sá um þessa þjónustu fyrir okkur og við mælum heilshugar með!

Alls konar hagnýtir punktar
- Við keyptum flug með Icelandair til Salzburg en Play flýgur samt þangað beint líka.
- Við pöntuðum akstur til og frá flugvelli með Flughafentransfer. Bílstjórinn sem sótti okkur villtist reyndar svakalega af leið þegar hann var að reyna að forðast umferðaröngþveiti sökum slyss og endaði með okkur á 4 tíma rúnti í stað 1,5 svo ég veit ekki alveg hvort ég geti mælt með þessu eða ekki, hahaha. Aðrir sem við þekkjum lentu hins vegar ekki í neinum vandræðum með þessum sama aðila og svo höfum við líka heyrt gott af Alps 2 Alps fyrirtækinu. Síðan má auðvitað taka lestina frá Salzburg og sleppa við alla umferð og mögulega áttavillta bílstjóra, hahaha! Flughafentransfer skilaði okkur hins vegar með pompi og pragt á flugvöllinn fyrir heimferð!
- Hótelið pöntuðum við beint af heimasíðunni þeirra og þeir voru með svona „early birds“ afslátt síðasta haust þegar við bókuðum (í september minnir mig) og þetta er algjörlega dásamlegt hótel.
- Skíðapassana keyptum við á hótelinu við komu og skilst mér flest hótel séu að sjá um slíkt.
- Við pöntuðum þjónustu hjá Park4u en þau tóku við bílnum hjá okkur á vellinum, geymdu hann og skiluðu tandurhreinum aftur fyrir utan um leið og við gengum út, algjörlega dásamlegt!

Það voru síðan lægðir á færibandi á Íslandi bæði þegar við vorum að fara og koma svo ferðalagði sjálft á milli áfangastaða tók aðeins lengri tíma en það hefði getað gert en svona er bara búa hér og klárlega mikilvægt að taka slíkt með í reikninginn á ferðalögum yfir vetrarmánuðina. Fluginu okkar var seinkað hressilega í Salzburg svo við kíktum bara í mollið og höfðum það huggulegt þar til farið var í loftið og síðan lent hér heima í 30 m á sekúndu, pjúff sko!
En allt er gott sem endar vel og við munum klárlega fara aftur í svona skíðaferð síðar!