Þessi kjúklingaréttur er kenndur við hershöfðingjann Zuo Zongtang sem alltaf var kallaður General Tso í Bandaríkjunum á nítjándu öld. Rétturinn fékk þetta nafn því umræddum hershöfðingja þótti hann góður! Ég hafði reyndar ekki hugmynd um þessa sögu fyrr en ég gúglaði hana en það var hún Tobba vinkona mín sem sagði við mig fyrir lööööööngu að ég þyrfti að gera svona uppskrift fyrir bloggið! Hér er hún því LOKSINS komin fyrir ykkur öll að njóta og ég vildi að ég hefði prófað fyrr, þetta svo rugl gott!

Ég elska reyndar allt sem er með asískum blæ og þessi réttur er klárlega nýja uppáhaldið mitt!

„General Tso‘s“ kjúklingur
Fyrir um 4 manns
- Um 900 g kjúklingabringur (eða úrbeinuð læri)
- 100 g kartöflumjöl
- Ólífuolía til steikingar
- 4 rifin hvítlauksrif
- 2 tsk. rifið ferskt engifer
- 1 krukka Blue Dragon Hoi sin sósa
- 2 msk. soyasósa
- 80 g púðursykur
- 3 msk. hvítvínsedik
- 1 tsk. Blue Dragon sesamolía
- ½ tsk. chilli flögur
- Meðlæti: Hrísgrjón, sesamfræ, vorlaukur
- Skerið kjúklinginn niður í bita, veltið upp úr kartöflumjölinu og steikið upp úr vel af ólífuolíu í nokkrum skömmtum á báðum hliðum þar til bitarnir verða stökkir og eldaðir í gegn. Færið jafnóðum yfir á disk og geymið.
- Steikið síðan hvítlauk og engifer upp úr olíu við vægan hita í um eina mínútu og hellið þá öllum öðrum hráefnum saman við fyrir sósuna. Gott er að vera búin að píska það allt saman fyrst (Hoi sin sósu, soyasósu, púðursykur, hvítvínsedik, sesamolíu og chilli flögur).
- Leyfið sósunni að sjóða aðeins niður við vægan hita og veltið kjúklingnum síðan upp úr henni.
- Berið fram með soðnum hrísgrjónum, sesamfræjum og vorlauk.

Hoi Sin sósa er eitt það allra besta, namm!

Síðan er spurning hvort að hershöfðinginn hafi skolað þessu niður með einni Stellu eða svo á sínum tíma?
