Hér er á ferðinni léttur og undursamlegur pastaréttur sem var skemmtileg tilbreyting frá því sem ég er vön að gera!

Ég fékk hugmyndina hjá Broma Bakery en ég elska að fylgjast með henni þó hún sé nú meira í kökunum en matseldinni svona almennt. Ég breytti uppskriftinni eftir mínu höfði og hér hafið þið mína útgáfu af þessu dásamlega humarspaghetti!

Humarspaghetti í sítrónusósu
Fyrir um 4 manns
- Um 650 g skelflettur humar frá Sælkerafiski (2 box)
- 100 g smjör
- 500 g spaghetti
- 6 hvítlauksrif
- 2 sítrónur (börkurinn)
- 50 ml sítrónusafi (um 1 sítróna)
- 200 ml pastavatn
- Söxuð steinselja
- Parmesan ostur
- Hvítlauks brauðrasp (sjá uppskrift að neðan)
- Góð ólífuolía
- Salt, pipar og hvítlauksduft
- Útbúið hvítlauks brauðrasp og leggið til hliðar.
- Sjóðið spaghetti í vel söltu vatni samkvæmt leiðbeiningum á pakka.
- Skolið og þerrið humarinn, steikið síðan upp úr um 50 g af smjöri, rífið um 3 hvítlauksrif yfir og kryddið eftir smekk. Steikið hann þó aðeins í stuttan tíma því hann er fljótur að eldast (1-2 mínútur). Takið af pönnunni og geymið á disk (með smjörinu/safanum) á meðan sítrónusósan er undirbúin.
- Bætið restinni af smjörinu á pönnuna og steikið um 3 rifin hvítlauksrif stutta stund við meðalhita.
- Bætið sítrónuberkinum, sítrónusafanum og smá af pastasoðinu saman við og leyfið aðeins að malla saman.
- Bætið þá restinni af pastavatninu á pönnuna ásamt pasta og humri og blandið öllu vel saman.
- Njótið með góðri ólífuolíu, steinselju, parmesan og stökkum hvítlauks brauðraspi.
Hvítlauks brauðrasp
- 3 heilhveiti brauðsneiðar (eða grófar)
- 2 hvítlauksrif
- 2-3 msk. ólífuolía
- Smá salt og pipar
- Ristið brauðsneiðarnar þar til þær verða vel stökkar. Rífið þær næst gróft niður og setjið í blandara, blandið þar til gróf mylsna hefur myndast.
- Steikið þá á vel heitri pönnu upp úr ólífuolíu og hvítlauk, kryddið eftir smekk. Steikið þar til stökkt og geymið þá til hliðar þar til bera á réttinn fram.

Það er einfalt og þægilegt að grípa skelfletta humarinn frá Sælkerafiski í alls kyns rétti!

Kalt hvítvín passar síðan einstaklega vel með þessari máltíð!

Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við Gerum daginn girnilegan.