Mig hefur lengi langað til að prófa að djúpsteikja blómkál. Við höfum reglulega keypt slíkt á veitingastöðum og alltaf fundist mjög gott. Mig langaði að finna einfalda leið sem allir gætu prófað og þessi tilraun hér tókst fullkomlega!

Þetta var svooooo gott!

Djúpsteikt blómkál uppskrift
- 1 x blómkálshaus (meðalstór)
- 180 g hveiti
- 30 g kartöflumjöl
- 300 ml vatn
- 4 msk. Caj P grillolía með hvítlauk
- 1 tsk. matarsóti
- 1 tsk. salt
- Um 600 ml matarolía til steikingar (canola eða grænmetis)
- Byrjið á því að hluta blómkálið niður í munnstóra bita.
- Pískið síðan öllu öðru (nema steikingarolíunni) saman í skál og veltið blómkálsbitunum vel upp úr blöndunni.
- Hitið olíuna í djúpum potti þar til hún nær um 180° hita og steikið blómkálsbitana í nokkrum skömmtum. Setjið eins marga í pottinn og þið getið hverju sinni en best er að nota töng og setja einn í einu (svo þeir festist ekki saman) og hafa smá rými í pottinum til að þeir steikist fallega.
- Snúið reglulega og steikið hvern skammt í um 3-4 mínútur eða þar til bitarnir eru gullinbrúnir.
- Leggið bitana á pappír til að fitan leki af þeim og þeir haldist stökkir og njótið síðan með chilli majó (sjá uppskrift hér að neðan).
Chilli majó uppskrift
- 120 g majónes
- 2 rifin hvítlauksrif
- 1 msk. sítrónusafi
- 1 msk. ólífuolía
- 1 msk. sriracha sósa
- ½ tsk. paprikuduft
- ½ tsk. salt
- Pískið öllum hráefnum saman og geymið í kæli fram að notkun.

Það má sannarlega nota grillolíur fyrir annað en grillmat!

Best er að borða blómkálsbitana um leið og þeir eru tilbúnir!

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Gerum daginn girnilegan.