Ég er komin í haust og vetrar kósígír í eldhúsinu og um daginn þegar ég óskaði eftir tillögum vildi fólk sjá einfaldan og fljótlegan fjölskyldumat. Hér kemur réttur í einu fati sem eru sívinsælir og hann var ekki lengi að klárast á þessu heimili get ég sagt ykkur!

Mmmm, þessi réttur minnti mig pínu á kjúklingaréttinn hennar tengdó en hann er líka undurgóður!

Kjúklinga- og hrísgrjónaréttur í ofni
Fyrir 4-5 manns
- 330 g Tilda long grain hrísgrjón
- 250 ml vatn
- 250 ml rjómi
- 250 ml mjólk
- 2 x kjúklingasúpa í dós (2 x 295 g)
- 1 msk. karrý
- 1 tsk. salt
- ½ tsk. pipar
- 200 g Cheddar ostur
- 1 poki Rose Poultry kjúklingalundir
- Salt, pipar, hvítlauksduft
- Ólífuolía og smjör
- Byrjið á því að hita ofninn í 180°C og smyrja eldfast mót að innan með smjöri.
- Hrærið næst saman í skál eftirfarandi hráefnum: hrísgrjónum, vatni, mjólk, rjóma, karrý, kjúklingasúpum, 100 g af Cheddar ostinum, salti og pipar. Hellið í eldfasta mótið, setjið álpappír yfir og í ofninn í eina klukkustund.
- Áður en klukkustund er liðin má snöggsteikja kjúklingalundirnar upp úr olíu, aðeins rétt til að loka þeim og krydda eftir smekk.
- Þegar hrísgrjónin hafa verið í ofninum í klukkustund má taka eldfasta mótið út, raða kjúklingalundunum ofan á, strá restinni af ostinum yfir og setja aftur í ofninn í 20 mínútur án álpappírsins.
- Gott er að bera réttinn fram með brauði og/eða fersku grænmeti.

Þið getið skipt lundunum út fyrir Rose Poultry bringur ef þið viljið en þá myndi ég setja þær ofan á hrísgrjónin eftir að þau hafa verið í 40 mínútur í ofninum og baka þær með í 40 mínútur (loka þeim fyrst á pönnu samt).

Mmm þetta er ekta hversdagsmatur!

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Gerum daginn girnilegan!