Vanillukaka með rjómaostakremi⌑ Samstarf ⌑
Bleik kaka með candyfloss

Bleiki dagurinn er haldinn hátíðlegur í október ár hvert. Ég útbjó þessa dásamlegu köku fyrir Morgunblaðið og matarvef MBL á dögunum og nú er hún komin hingað inn fyrir ykkur að njóta á sjálfan Bleika daginn!

bleiki dagurinn kaka

Ég á þrjár stelpur svo líf mitt hefur verið ansi bleikt síðustu tuttugu árin eða svo. Síðan bý ég í bleika hverfinu í Mosfellsbæ svo það má sannarlega segja ég sé orðin nokkuð bleik og ekki í vandræðum með að finna upp á gómsætum bleikum veitingum.

Candyflosskaka

Vanillukaka með rjómaostakremi

Fyrir 10-12 manns

Vanillu kökubotnar uppskrift

 • 340 g hveiti
 • 2 tsk. lyftiduft
 • 1 tsk. salt
 • 230 g smjör við stofuhita
 • 350 g sykur
 • 60 ml ljós matarolía
 • 3 egg + 3 eggjahvítur
 • 60 g sýrður rjómi
 • 300 ml súrmjólk
 • 2 tsk. vanilludropar
 1. Hitið ofninn í 170°C og setjið smjörpappír í botninn á 4 x 15 cm kökuformum, spreyið þau síðan vel að innan með matarolíuspreyi.
 2. Hrærið saman hveiti, lyftidufti og salti og geymið þar til síðar.
 3. Þeytið saman smjör, sykur og matarolíu þar til blandan verður létt og ljós (skafið aðeins niður á milli).
 4. Setjið eggin saman við í nokkrum skömmtum, hrærið og skafið niður á milli.
 5. Bætið síðan þurrefnunum saman við í nokkrum skömmtum til móts við sýrðan rjóma, súrmjólk og vanilludropa.
 6. Hrærið vel saman og skiptið síðan jafnt niður í kökuformin og bakið í um 30 mínútur eða þar til prjónn kemur út með smá kökumylsnu en ekki blautu deigi.
 7. Kælið botnana á grind, skerið ofan af þeim til að jafna þá og útbúið næst kremið.

Rjómaostakrem og samsetning

 • 240 g smjör við stofuhita
 • 160 g Philadelphia rjómaostur við stofuhita
 • ½ tsk. salt
 • ½ tsk. sítrónudropar
 • 2 msk. Cream of tartar
 • 1000 g flórsykur
 • Bleikur matarlitur
 • Bleikur Candyfloss
 1. Þeytið saman smjör, rjómaost, salt og sítrónudropa þar til blandan verður létt og ljós.
 2. Blandið Cream of tartar saman við flórsykurinn og setjið saman við í nokkrum skömmtum, þeytið vel og skafið niður á milli.
 3. Bætið matarlit saman við og þeytið áfram þar til slétt og létt krem hefur myndast.
 4. Smyrjið um 1 cm þykku lagi á milli botnanna og hjúpið fyrst með þunnu lagi af kremi, kælið kökuna síðan í um 15 mínútur.
 5. Hrærið aðeins upp í kreminu áður en þið setjið næsta lag yfir en það má vera um ½ cm á þykkt og sléttið úr þessari umferð eins og unnt er.
 6. Setjið restina af kreminu í sprautupoka og notið þéttan stjörnustút til þess að sprauta „öldumynstur“ bæði ofan á kökuna og neðst við diskinn.
 7. Skreytið síðan með því að setja bleikan Candyfloss á toppinn.
philadelpia rjómaostur í kremið

Dætur mínar elska vanillukökur og þessi heppnaðist ótrúlega vel og mjög gott að fá smá sítrónukeim í kremið.

kylie freyðivín

Mmm…

Ískalt Kylie freyðivín fer vel með kökunni og svo eru þessar flöskur auðvitað bleikar og fallegar! Bleikur Candyfloss gerir lífið síðan einfaldlega betra svo því ekki að skreyta bæði köku og freyðivínsglös með honum!

Bleik kaka

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Gerum daginn girnilegan!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun