„Vintage“ afmæliskaka



hjartakaka

Elsta mín varð 20 ára í síðustu viku! Þegar ég spurði hana hvernig köku hún vildi segir hún „Mig langar í gamaldags hjartaköku með blúndumynstri með góða jarðarberjakreminu á milli sem þú gerðir einu sinni fyrir skautafjáröflun“. Ég þurfti alveg að klóra mér aðeins í hausnum því ég mundi ekki nógu vel eftir kreminu en síðan áttuðum við okkur á því að það voru þessar kökur hér sem hún var að tala um svo ég útfærði það krem til að þola það að vera á milli á þetta stórri köku.

vintage cake

Ég átti hins vegar ekki hjartakökuform svo ég fann slík í Byggt & búið og við gúgluðum aðeins „vintage cakes“ þar sem ég hef ekki séð mikið um þetta hér heima. Stelpurnar í Bake My Day í Kaupmannahöfn eru algjörir snillingar og sá ég nokkrar skreytingahugmyndir hjá þeim sem við vorum ánægðar með svo við bara fórum af stað með þetta.

gamaldags skreytt kaka

„Vintage“ hjartakaka

Súkkulaðibotnar

  • 2 x Betty Crocker Devils Food Cake mix
  • 3 msk. bökunarkakó
  • 250 ml Isio matarolía
  • 500 ml vatn
  • 7 egg
  • 1 x Royal súkkulaðibúðingur
  1. Hitið ofninn í 160°C.
  2. Blandið saman eggjum, vatni og matarolíu í skál.
  3. Bætið kökuduftinu ásamt kakóinu saman við og hrærið saman í um 2 mínútur, skafið niður á milli.
  4. Að lokum má setja búðingsduftið saman við deigið og blanda stutta stund til viðbótar.
  5. Spreyið matarolíuspreyi/smyrjið formin vel og setjið rúmlega 500 g af deigi í hvert form.
  6. Bakið í um 25 mínútur eða þar til prjónn kemur út með smá kökumylsnu á endanum, ekki blautu deigi.
  7. Kælið botnana alveg, skerið þá ofan af þeim til að jafna þá og setjið jarðarberjakrem á milli.

Jarðarberjakrem á milli hæða

  • 140 g smjör við stofuhita
  • 600 g flórsykur
  • 100 g jarðarber (stöppuð gróft)
  • 1 tsk. vanillusykur
  1. Þeytið smjörið þar til það verður létt í sér og bætið þá hluta af flórsykrinum saman við, þeytið og skafið niður á milli.
  2. Bætið næst stöppuðum jarðarberjum, vanillusykri og restinni af flórsykrinum (í nokkrum skömmtum) saman við og þeytið vel og skafið niður á milli þar til þykkt en létt jarðarberjakrem hefur myndast.
  3. Skiptið kreminu í 3 hluta og smyrjið á milli botnanna, setjið kökuna næst í kæli á meðan næsta krem er útbúið.

Smjörkrem utan á köku

  • 4 dósir Betty Crocker Vanilla frosting
  • 400 g flórsykur
  • Sósulitur/matarlitur
  1. Þeytið saman vanillukrem og flórsykur þar til létt og fallegt hvítt krem hefur myndast.
  2. Setjið um 1/3 af kreminu til hliðar og litið restina í þeim lit sem þið óskið.
  3. Til þess að fá drappaðan lit má ýmist nota matarlit eða smá sósulit eins og við gerðum þetta skiptið því það var ekki annað til (bragðið fannst ekkert í gegn þetta var svo lítið).
  4. Þekjið næst kökuna að utan með þunnu lagi af drapplituðu kremi, kælið í um 15 mínútur og endurtakið síðan leikinn með aðeins þykkara lagi af kremi.
  5. Setjið næst drapplitað krem í sprautupoka með litlum laufastút annars vegar og litlum stjörnustút hins vegar. Setjið hvítt krem í poka með stórum og þéttum stjörnustút annars vegar og stórum laufastút hins vegar.
  6. Sprautið með því mynstri sem ykkur þykir fallegt, ég notaði stjörnustútana neðst á botninn og efst á kantinn/toppinn, síðan laufastútana til að gera „blúndur“ á hliðarnar, setti síðan stórar sykurperlur á samskeytin til að fela þau.
blúndukaka

Æji þetta er svo krúttlegt og ég á klárlega eftir að útbúa fleiri svona í framtíðinni og langar einmittað prófa fleiri liti og skemmtilegheit.

hjartakaka

Þetta fallega kökuskilti kemur síðan frá Hlutprent en það er í letri og anda „vintage“ kökunnar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun