20 ára afmælisveislaveitingar fyrir afmæli

Elsku besta stóra stelpan mín er orðin 20 ára gömul! Hvernig það má vera að tíminn líði svona hratt er hins vegar önnur saga! Ég hitti pabba hennar rétt áður en ég sjálf varð tvítug svo þetta sýnir okkur hvernig lífið frussast áfram á ljóshraða og mér finnst þetta allt rosa mikið fullorðins! Hún vildi halda stelpupartý í tilefni dagsins og ég hjálpaði henni að undirbúa slíkt eftir hennar höfði. Þetta gæti verið síðasta afmælið sem ég undirbý fyrir hana svo við gerðum þetta með pompi og prakt og hér koma hugmyndir ef þið viljið nýta ykkur!

Eins og oft áður blandaði ég saman heimagerðum veitingum og aðkeyptum veitingum. Það er svo gott að létta sér aðeins lífið og að þessu sinni valdi hún að panta allt matarkyns frá Tokyo Sushi. Síðan var hún með „vintage“ hjartaköku og bakka með sætum bitum. Þessu til viðbótar var síðan bar með alls kyns ávöxtum, freyðivíni og öðru til þess að allir gætu fengið eitthvað við sitt hæfi.

myndakassi

Það var síðan að sjálfsögðu myndakassi í bílskúrnum frá vinum mínum hjá Instamyndum og ég var einmitt sjálf á leiðinni í pallíettupartý með vinkonum mínum svo ég var hressilega í stíl við bakgrunninn þetta skiptið, haha!

sushi í veislu

Varðandi veitingarnar þá pöntuðum við sushi í bland við aðra rétti. Við vorum með einn bakka með engu hráu þar sem ein vinkona hennar er barnshafandi og svo blandaða bita á þeim næsta. Kóresku vængirnir og edamame baunirnar voru á sínum stað og ef þið eruð að kaupa ykkur mat á Tokyo Sushi og hafið ekki smakkað þá tvo rétti þá hafið þið ekki lifað, hahaha!

veisla veitingar

Grænmetis Gyoza er síðan einn af hennar uppáhalds réttum þaðan og að sjálfsögðu pantaði hún einn bakka af slíkum enda finnst mér sniðugt að blanda saman allt konar til að allir finni eitthvað við sitt hæfi.

tilbúinn matur í veislu

Ég ákvað líka að prófa tvo rétti af mateðlinum þar sem mér þóttu þeir einstaklega girnilegir og bera þá fram sem hluta af hlaðborðinu. Hér fyrir ofan sjáið þið kjúklinga katsu með karrísósu og namm það var alveg geggjað! Hér fyrir neðan er síðan kjúklinga karaage réttur sem var ekki síðri. Sósa kom með báðum réttum svo stelpurnar höfðu úr nægu að velja og ég á pottþétt eftir að prófa þessa tvo rétti aftur síðar þegar við pöntum mat frá Tokyo (sem gerist nú ansi reglulega, tíhí).

veisluhugmyndir

Blöðrurnar voru í stíl við kökuþemað í dröppuðum og brúnum tónum og fannst mér slíkt skemmtileg tilbreyting frá glansandi og litríkum blöðrum sem við höfum oftast haft. Ég raðaði veitingunum á eyjuna og var með drapplitaða pappadiska og servíettur svo stelpurnar gátu bara náð sér í mat og sest í stofuna eða borðstofuna. Allar skreytingar (blöðrur, diska, servíettur, props í myndabás o.fl) keypti ég í Partýbúðinni.

hjartakaka

Afmæliskakan var tilraunastarfsemi hjá mér í „vintage“ skreytingu en kvöldið fyrir afmæli spurði ég hana hvernig köku ég ætti að gera, haldandi það ég myndi skutla í eina klassíska litla hringlaga eins og ég geri alltaf. Svarið var þá „mig langar í svona hjartaköku með blúndumynstri og getur þú gert jarðarberjakremið sem þú gerðir einu sinni á súkkulaði bollakökur og seldir í fjáröflun í skautunum“, jahá! Ég horfði bara á hana og já einmitt, fór að gúgla myndir og áttaði mig á því hvað hún var að tala um enda hafði ég aðeins fylgst með stelpunum hjá Bake my Day í Kaupmannahöfn vera að þróa þennan stíl. Mig vantaði líka hjarta kökuform (betra að sleppa því að skera upp á mylsnu að gera) svo ég fór á fullt við að uppfylla þessa kökuósk. Kökuformin fundum við í Byggt & búið og hún kom við þar á leiðinni heim úr skólanum og ég rissaði upp skreytinguna og svo var að hefjast handa.

hjartakaka

Kakan samanstendur af 4 súkkulaðibotnum með jarðarberjakremi á milli og er skreytt með drapplituðum lit að utan og skreytt með honum sem og hvítu kremi. Snillingarnir hjá Hlutprent sáu síðan til þess að útbúa kökuskilti fyrir okkur og gerðu þeir annars vegar með nafninu hennar og svo annað minna með Voginni en það er stjörnumerkið hennar.

sætir bitar hugmyndir

Sætir bitar voru á sínum stað enda eeeeeeeeeelskum við slíka bakka! Hluta af góðgætinu keypti ég í Fjarðarkaup (kleinuhringi, makkarónur og vanillubollur með súkkulaði) og síðan er restin heimagert. Ég átti nokkrar vanillu kökupinnakúlur í frysti svo við blönduðum saman hvítum súkkulaðihjúpi og Doré dropum frá Nóa Síríus og úr varð hinn fullkomni drappaði litur. Við útbjuggum Pandagott (döðlugott) sem sló í gegn og gerðum karamellu súkkulaðimús upp úr Nóa Síríus bæklingnum sem við settum í minni krukkur. Nammi namm þetta var allt svo gott og ég mæli innilega með svona blönduðum sætum bitum þegar þið eruð með veislu/matarboð.

Ostabakki er líka skylda að mínu mati í góðu partýi og hér er bakki með Feyki, Höfðingja, Dalahring, Auði, hráskinku, salami, kexi, nammi, berjum og alls konar!

freyðivín í veislu

Tuttugu ára og má sjálf fara í Vínbúðina! Þetta er líka rosa fullorðins að mínu mati og valdi daman að hafa tvær tegundir af Prosecco ásamt því að vera með sterkara áfengi til að blanda í kokteila.

veisla

Ég skar því niður sítrusávexti, var með ólífur, jarðarber, myntu og candyfloss þannig að þær gátu útbúið sér það sem þær vildu.

myndakassi í veislu

Hér má sjá brot af þeim myndum sem voru teknar á myndakassann en mér finnst svo dýrmætt að leigja þannig til þess að fanga stemminguna og til að taka fleiri myndir sem annars vill oft gleymast!

Vonandi fáið þið hugmyndir fyrir næstu veislu með þessum skrifum hjá mér en mér finnst alltaf gaman að deila veisluráðum hér inni!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun