Yngri dúllurnar mínar tvær áttu afmæli í mars og apríl og Hulda Sif nýorðin 5 ára fékk að velja þema sem var að þessu sinni hafmeyjuþema.

Við erum búin að vera á ferð og flugi síðustu vikur svo lítill tími var fyrir afmælisveislu en einhvern vegin tókst að græja þetta á rúmum sólahring eftir heimkomu til landsins. Við höfum haft það að venju að slá saman í fjölskyldu- og vinaafmæli fyrir þær þar sem það er bara mánuður á milli afmæla og loksins var hægt að bjóða öllum þar sem engar samkomutakmarkanir eru nú í gildi.

Ég var búin að baka botna + bollakökur um daginn og frysta. Ég elska að dúllast í kökuskreytingunum sjálfum en núna var alls ekki mikill tími fyrir það en þetta reddaðist nú allt. Hafmeyjusporðarnir eru mislitt súkkulaði (Candy Melts) sem ég málaði svo með glimmeri sem óhætt er að borða.

Annað skraut hafsins á kökunni er líka súkkulaði sett í sílikonmót. Ég blandaði til dæmis bláu, smá grænu og hvítu súkkulaði saman fyrir rétta litinn og fikraði mig áfram á svipaðan hátt með aðra liti. Það vildi svo heppilega til að ég átti kökuskrautið síðan í Flórídaferð um árið þegar ég datt inn í kökuverslun og keypti svolítið af fínheitum, haha!

Kökuskiltið og öll glimmerprik á bollakökum lét ég útbúa í Partývörum í stíl við blöðrur og annað skraut sem ég keypti einnig þar. Pappadiskar, servíettur, glös og allt var til í stíl og gaman að raða þessu öllu saman og gera fallegt.

Æj þetta er svo krúttlegt allt saman!

Sílíkonmótin keypti ég á Amazon og setti alltaf í frystinn í um 15 mínútur á milli áður en ég gerði næstu umferð af súkkulaðiskrauti.

Annars er uppistaðan í kökunni Betty Crocker með Royal búðingsdufti og súkkulaðismjörkremi á milli laga. Utan á notaði ég Betty Vanilla Frosting því litirnir koma svo skemmtilega út í því. Ég þykki það aðeins með flórsykri og mixa matarlitum saman til að finna rétta tóninn, bara setja lítið í einu og hræra á milli!

Bollakökur eru einnig Betty með súkkulaðismjörkremi. Hvað get ég sagt, Betty er einfaldlega snilld þegar kemur að því að græja veislu!

Til þess að gera tveggja hæða köku nota ég stoðir og pappaspjald á milli. Getið kíkt hér í Highlights eða hér á Instagram til að sjá hvernig þetta er gert.

Það er hins vegar alls ekki nóg að bjóða aðeins upp á kökur þegar boðið er í afmæli síðdegis á virkum degi og allir að koma svangir úr vinnu, skóla eða íþróttum.
Þar sem lítill tími var til stefnu hafði ég pantað allar veitingar hjá Minigarðinum og mikið sem það var gáfulegt og gómsætt! Það þurfti aðeins að sækja matinn og raða honum á borðið. Hann kom meira að segja á fallegum pappabökkum svo það hefði í raun ekki þurft að hafa neitt fyrir þessu. Ég var bara að fá tvo nýja standa sem mig langaði að prófa aðeins og svo taka veitingarnar auðvitað minna pláss á borðinu svona á mörgum hæðum!

Mini hamborgarar klikka aldrei og við vorum með bland af Flavor borgurum og kjúklingaborgurum.

Síðan vorum við með kjúklingavængi, bland af Hot Wings og BBQ vængjum og kjúklingataco með krispí kjúkling og rauðkáli, namm!

Mmmm….

Krakkar vilja oft eitthvað einfalt og gátum við sérpantað litla kjúklingabita sem hægt var að dýfa í bbq eða tómatsósu.

Namm, mig langar í bita af þessum akkúrat núna þegar ég er að skrifa þessa færslu!

Svo kom líka Þristamús í litlum boxum svo það fór sannarlega enginn svangur heim!

Elín Heiða vildi fá sína eigin köku og var ekki eins æst í hafmeyjuþemað og litla systir. Hún fékk því að hafa sína köku á eyjunni ásamt öðrum veitingum sem hún valdi sérstaklega og útbjó með mér.

Marengs er skyldukaka í öllum veislum. Við útbjuggum bæði litlar pavlovur og „mess í skál“ sem var alveg sjúklega gott. Púðursykursmarengs, rjómi, saxaður Þristur, Mars, Snickers og síðan Fílakaramellusósa og fersk jarðarber yfir allt. Nokkrar kókosbollur laumuðu sér síðan einnig í stóru skálina til að toppa þetta endanlega.

Slurp og slef þetta var svooooo gott!

Það þarf alltaf smá jafnvægi í veislum og Elín Heiða sá um að útbúa þessi krúttheit! Prikin keyptum við í Sösterne Grene og síðan föndraði hún þetta allt saman.

Rice Krispies skorið í litla kubba og skreytt með lituðu súkkulaði og kökuskrauti.

Ég elska Cheesecake Factory ostakökur og hef keypt slíkar í Costco frá því það kom til landsins. Nú er hins vegar hægt að fá litlar þannig að minnsta kosti í Bónus og sett ég sykruð jarðarber á toppinn. Þessi kaka er guðdómleg og þarna þurfti ekkert að hafa fyrir neinu!

Við Hemmi vorum í Prag dagana á undan afmælinu og þar fann ég breiðar saltstangir í Billa Supermarket sem ég dýfði í litað súkkulaði og skreytti með kökuskrauti. Fjólubláu og bleiku stóru sykurpúðarnir koma einnig frá Prag en þar er að finna margar stórar nammibúðir með alls kyns gotteríi.

Andlitsmálun er líklega ein mesta snilld sem hægt er að panta í veislu þar sem mörg börn koma saman. Við höfum fengið yndislegu Ingunni hjá Andlitsmálun Ingunnar til að koma í ótal veislur hjá okkur og krakkarnir fá stjörnur í augun um leið og hún byrjar. Síðan taka allir númer og bíða rólegir og fylgjast með listaverkagerðinni á meðan því hún er algjör snillingur í þessu!

Mikið sem það var gaman að geta haldið aftur veislu eftir allt of langt hlé!