Það er rúm vika frá fallega fermingardeginum hennar elsku Elínar Heiðu okkar. Loksins næ ég að setjast niður og skrifa þessa færslu fyrir ykkur sem mun vonandi gagnast fólki í veislupælingum og undirbúningi fyrir fermingu. Hér á síðunni er að finna nokkrar fleiri fermingarfærslur svo ég hvet ykkur til að gefa ykkur tíma og rúlla yfir þetta efni því þar er sannarlega nóg af skemmtilegum hugmyndum að finna!

Fyrir sex árum á sama degi, 26.mars 2017 fermdist stóra systir hennar svo það var algjör óþarfi að vera að breyta um dagsetningu, það er verst að 26. mars 2031 kemur upp á miðvikudegi svo litla systir þeirra mun þurfa að finna sér aðra dagsetningu kjósi hún að fermast, haha!
Við leyfðum ykkur að fylgjast með undirbúningi á INSTAGRAM í Highlights svo smellið endilega á reikninginn hér að ofan og kíkið þangað!
Hér er síðan stutt myndband frá deginum…

Við héldum veisluna hér heima og áttum yndislegan dag með fjölskyldu og vinum. Við fórum í myndatökuna nokkrum vikum fyrr og náðum því að útbúa myndabók og prenta út myndir til að hengja upp fyrir veisluna. Það komu um 100 manns í veislu (60 fullorðnir og 40 börn/unglingar). Við vorum með opið hús í 4 klukkustundir og vorum búin að blikka vini okkar alla að koma með sínar fjölskyldur í „seinni hálfleik“ svo þetta gekk ágætlega upp. Við vorum búin að fá lánaða stóla hjá nágrönnunum, setja upp setustofu og myndabás í bílskúrnum og reynda að nýta húsið eftir bestu getu.

Við reyndum að undirbúa allt í tíma en svo auðvitað er fullt af hlutum sem ekki er hægt að gera nema skömmu fyrir veislu og samdægurs svo það var auðvitað í nægu að snúast. Ég ætla að leyfa myndunum að tala sínu máli og set upplýsingar um alls konar með hlekkjum hér neðst í færsluna.
Góða skemmtun við lesturinn!

Veitingarnar komu héðan og þaðan, hluta pöntuðum við og hluta gerðum við sjálf.

Smáréttirnir komu frá Nomy veisluþjónustu eins og svo oft áður og voru þeir undursamlegir líkt og áður!

Elín Heiða var hörð á því að vilja bjóða upp á sushi í veislunni og auðvitað fékk hún að gera það!

Þetta undurfallega og bragðgóða sushi kom frá Osushi og hvar hver bitinn á eftir öðrum betri!

Ostabakka settum við bæði á borðstofuborðið og á eyjuna á hlaðborðið, þeir slá alltaf í gegn og hér settum við saman Dala osta, Gretti, Mexíkó kryddosta (því Elín elskar þá), alls konar kex, ávexti og sætmeti og ekki má gleyma kjötálegginu. Við vorum með ítalskt salami, Toskana skinku og Rioja hráskinku frá Ali sem ég prófaði að útbúa hráskinku-blóm úr. Hef hingað til bara prófað þetta með salami en Rioja skinkan var fullkomin í þetta og verður sannarlega útbúið blóm úr henni aftur!

Það er síðan mjög mikilvægt að gleyma ekki börnunum! Fínir smáréttir og sushi er ekki endilega fyrir alla litla munna og hér voru bökuð 150 skinkuhorn, kjúklingabollur eldaðar með HoiSin sósu, um 100 ávaxtapinnar útbúnir og snakk sett í skál! Það kláraðist nánast allt nema við gleymdum einum ávaxtabakka í kæli svo hann varð afgangs, hahaha. Við pöntuðum tilbúna ávaxtabakka frá Dagný og Co og bættum jarðarberjum + bláberjum við, það var mikill tímasparnaður og við losnuðum við allt „subbið“ sem fylgir því að skera mikið af ávöxtum.

Fermingarkökuna bakaði Elín Heiða alveg sjálf. Ég mátti ekki koma nálægt þessu fyrir utan það að saga fyrir hana stoðirnar til að setja á milli hæða og kaupa fyrir hana blómin (eftir ósk samt, haha). Hún er sjálfstæð og dugleg þessi stelpa og vissi nákvæmlega hvernig hún vildi hafa kökuna sína! Kakan er súkkulaðikaka með súkkulaðikremi (Betty með twisti + gott smjörkrem) sem skreytt er með hvítu Betty kremi á grófan máta og blómum. Ljúffeng var hún um leið og hún var stórkostlega falleg hjá henni!

Kransakökuna bakaði ég og finnið þið uppskrift af henni hér í þessari færslu.

Rice Krispies kransaköku er einfalt að útbúa sjálfur og elska hana ungir sem aldnir! Ég bætti 200 g meira af Rice Krispies útí þessa uppskrift og notaði afganginn til að útbúa litla Rice Krispies kubba sem ég síðan skreytti. Mér finnst best að skipta uppskriftinni í tvennt og vinna þetta þannig,líka alltaf betra að vera með meiri en minni blöndu til að lenda ekki í neinu stressi. Það má alltaf nota restina í litlar kökur/bita sem allir munu elska.

Alls konar litlir sætir bitar í bland er það allra sniðugasta! Ég útbjó sjálf bollakökur, kökupinna, Rice Krispies kubba, kransakökubita og súkkulaðimús og keypti makkarónur og Petit four bita hjá Gulla Arnari.
Ég elska að bera veitingar fram á fallegum diskum/bökkum. Þessa smáréttastandar á 3 hæðum keypti ég í Húsgagnahöllinni, plexistandana og litlu svörtu bakkana með Petit-four bitnum frá Gulla Arnari er hægt að leigja hér á síðunni, Nomy kom með hluta af bökkum undir sínar veitingar og svo var ég með alls konar bretti og diska sem ég hef safnað að mér í gegnum tíðina.

Hér ættu sannarlega allir að finna eitthvað við sitt hæfi!

Nammibar stendur alltaf fyrir sínu!

Við fórum upp í Kólus og keyptum allt nammið beint úr verksmiðjunni, það er svo svakalega mjúkt og extra gott þannig! Það er bara hægt að koma, hringja á bjöllu rétt innan við hurðina og þá kemur einhver og aðstoðar ykkur. Við notuðum 2-3 poka af hverju nammi og einn kassa af mini kókosbollum. Síðan er þetta reyndar alveg stórhættulegt því við vorum með hann þarna í heila viku eftir ferminguna og stóðum á beit, hahahaha!
Eina nammið sem var ekki Sanbó nammi voru kossarnir, þá keyptum við í Kosti og merktum með sérhönnuðum límmiðum frá BH hönnun líkt og kókflöskurnar.

Drykkir voru alls konar, kaffi, gos, sódavatn, djús og fleira og það er virkilega gaman að merkja kókflöskur með þessum hætti!

Við prófuðum að gera blómaklaka eftir að hafa séð Sólrúnu Diego gera slíka og tókust þeir ágætlega. Það var bras að koma blómum inn í blöðruna og síðan þarf að setja aðeins meira vatn en við gerðum og lofttæma eins og hægt er til að þeir verði fallegir, munum þó án efa gefa þessu annað tækifæri síðar, haha!

Gestabókin og kertið fallega frá Vast var í forstofunni og minntum við alla á að skrifa í bókina og láta taka mynd af sér í myndabásnum áður en heim var haldið.

Það er svo gaman af svona myndum og ég mæli 100% með myndabás, þá safnast allar myndirnar á einn link og hægt er að framkalla og setja í gestabók. Við pöntuðum baug + bakgrunn hjá Instamyndum og útbjuggum síðan blöðruboga sjálf sem við keyptum í Partýbúðinni og settum inn í rammann, það var virkilega skemmtilegt.

Brot af þeim myndum sem komu frá Instamyndum……..hlakka til að setja þessar og fleiri í gestabókina!

Skreytingar, skreytingar, skreytingar! Við fengum allar skreytingar í Partýbúðinni og pöntuðum blóm með fyrirvara í Garðheimum til að fá örugglega það sem við vildum. Við vorum helst að vinna með blöðrur og blöðruboga og leigðum „blöðru-blástursvél“ hjá Partýbúðinni, það var algjör game-changer, hahaha! Það er vel hægt að setja blöðruboga upp með nokkurra daga fyrirvara, hann helst flottur lengi lengi! Ef það myndi einhver blaðra springa/leka úr þá er gott að eiga bara nokkrar auka, blása í og bæta inn í ef þarf. Við lentum ekki í því og allar þessar blöðrur enduðu svo í fermingu hjá frænda okkar viku síðar og stóðu áfram fyrir sínu!
Ferming, hlekkir á alls konar sem fjallað hefur verið um hér að ofan!
- Smáréttir komu frá Nomy veisluþjónustu eins og svo oft áður, alveg hrikalega góðir og vöktu mikla lukku.
- Sushi pöntuðum við frá Osushi og var það dásamlegt.
- Ávaxtapinnar á barnaborði voru útbúnir úr tilbúnum ávaxtabökkum frá Dagný og Co og jarðarberjum og bláberjum blandað saman við.
- Makkarónur og hluta af sætu bitunum pöntuðum við hjá Gulla Arnari en hann er snillingur þegar það kemur að þessu.
- Svörtu veislubakkana á 3 hæðum keyptum við í Húsgagnahöllinni.
- Plexi veislubakkana á nokkrum hæðum er hægt að leigja hér á síðunni.
- Allt skraut, blöðrur og fínerí fengum við í Partýbúðinni.
- Blómin fallegu, áletrun á sálmabók, kertaskreytinguna og fleira sniðugt keyptum við í Garðheimum.
- Límmiðar á Coke flöskur, kossa og skilti fyrir nammibarinn pöntuðum við hjá BH hönnun og hannaði hún það í takt við körfubolta- og litaþemað í veislunni.
- Kerti og gestabók var frá Studio Vast og var undirfallegt!
- Kökuskiltin koma frá Hlutprent.
- Pöntuðum myndakassa hjá Instamyndum og ætlum að framkalla myndir úr honum og setja í gestabókina.
- Myndabók + myndir til að hengja upp á vegg pöntuðum við hjá Pixel, mjög góð þjónusta og flott gæði.
- Fermingarmyndirnar tók vinur okkar hann Lalli og er meistari í slíku, www.larus.is
- Við Elín Heiða fengum okkur báðar nýtt skart fyrir veisluna og keyptum það hjá by Lovisa.
- Kjólinn hennar Elínar Heiðu pöntuðum við á Club London og minn fékk ég í Mbutik, stóra systir er í kjól frá Asos, litla frá Englabörnum og pabbinn keypti jakkaföt í Selected (keypt kortér í lokun daginn fyrir myndatöku, hahaha).
- Jordan fermingarskór voru pantaðir á Goat.
TAKK fyrir lesturinn og vonandi koma þessar upplýsingar að gagni!