Ef þetta er ekki ein sú krúttlegasta páskakaka sem ég hef gert þá veit ég ekki hvað. Ekki skemmir fyrir hvað hún er unaðslega góð og kremið maður minn! Það er síðan svo einfalt og skemmtilegt að skreyta kökur með Kit Kat súkkulaði og síðan er hægt að setja hvað sem er á toppinn eftir því hvert tilefnið er.

Að þessu sinni skreytti ég hana í páskalegum stíl en það væri sannarlega hægt að nota hvaða litaþema sem er, fyrir hvernig veislu sem er, afmæli, fermingu eða hvað eina!

Mmm….

Súkkulaðikaka með súkkulaðikremi
Fyrir 10-12 manns
Súkkulaðibotnar uppskrift
- 170 g hveiti
- 90 g bökunarkakó
- 170 g sykur
- 90 g púðursykur
- 2 tsk. lyftiduft
- ½ tsk. salt
- 170 g súrmjólk
- 120 g ljós matarolía
- 2 stór egg
- 2 tsk. vanilludropar
- 170 g sjóðandi vatn
- Hitið ofninn í 175°C og smyrjið 3 x 15 cm kökuform vel að innan og setjið bökunarpappír í botninn.
- Setjið öll þurrefnin í eina skál og blandið saman.
- Vigtið næst súrmjólk, olíu, egg og vanilludropa í aðra skál og pískið saman, bætið sjóðandi vatninu saman við í nokkrum skömmtum og pískið áfram.
- Hellið næst súrmjólkurblöndunni saman við þurrefnin og hrærið/pískið saman þar til kekkjalaust.
- Skiptið niður á milli formanna og bakið í 30-35 mínútur eða þar til prjónn kemur út með smá kökumylsnu á endanum, ekki blautu deigi.
- Kælið alveg og skerið síðan ofan af botnunum til að jafna þá áður en kreminu er smurt á.
Súkkulaði smjörkrem uppskrift
- 320 g smjör við stofuhita
- 360 g flórsykur
- 70 g bökunarkakó
- 2 tsk. vanilludropar
- 3 msk. uppáhellt kaffi
- ¼ tsk. salt
- 150 g brætt suðusúkkulaði
- Þeytið smjörið þar til það verður létt og ljóst.
- Bætið flórsykri, kakó, vanilludropum, kaffi og salti saman við í nokkrum skömmtum og þeytið vel áfram.
- Að lokum má setja brætt suðusúkkulaði saman við og blanda vel saman við.
- Smyrjið næst vænu lagi á milli botnanna og síðan utan um og ofan á alla kökuna. Reynið að hafa kremið slétt og ekki of mikið á hliðunum til að KitKatið renni ekki til, samt þannig að það hylji alveg botnana.
- Skreytið (sjá að neðan).
Skreyting
- 8 stk. Kit Kat súkkulaðistykki (skorin í sundur svo úr verða 8×4 = 32 stakir bitar)
- Um 300 g súkkulaðiegg í páskalitunum
- Spotti og blóm til að binda utan um kökuna
- Skerið Kit Kat stykkin í sundur með beittum hníf, raðið síðan jafnt og þétt allan hringinn á kökunni.
- Raðið súkkulaðieggjum yfir allan toppinn og bindið næst spotta um kökuna miðja og festið í hann fallegt páskablóm.

Það skemmir síðan alls ekki fyrir hvað KitKat er gott!

Ein virkilega skemmtileg kaka sem allir ættu að ráða við að skreyta!

Á degið að vera svona þunnt eins og vatn nánast?