Barbie afmælisveislaÉg veit fátt skemmtilegra en að halda veislur! Þetta er hreinlega eitt af mínum áhugamálum og ég elska að plana eitthvað gómsætt að borða í bland við fallegar skreytingar þegar veislu skal halda.

Bleikt afmæli

Yngsta mín, Hulda Sif varð 6 ára í apríl og hún var búin að biðja um bleikt Barbie afmæli fyrir löngu. Ég ákvað að grípa gæsina og fara „All-in“ í bleika litnum þar sem hver veit nema þetta verði síðasta bleika veislan í bili, þið vitið nefnilega að allt í einu verður bleikt ekki lengur aðalliturinn þegar maður eldist, tíhí!

Afmæli hugmyndir

Ég er ekkert sérstaklega hrifin af diskum, glösum og þess háttar með Barbie fígúrunum áprentuðum svo ég fór smá í kringum þetta með því að notast við allt í bleikum lit, baka Barbie köku og panta Barbie kökuskilti, bæði á stórt og nokkur lítil sem ég stakk í nammikrúsir, bollakökur og fleira. Útkoman varð mjög sæt og daman alsæl með þetta allt saman!

6 ára! Ég trúi því varla að litla barnið mitt sé á leiðinni í skóla í haust, þessi tími flýgur!

Stutt myndband frá deginum.

Við skreyttum borðstofuna alla í hvítu, fölbleiku og smá gylltu og ég reyndi að gera kökur og annað góðgæti í stíl við þessa liti. Allt partýdótið og blöðrurnar fengum við í Partýbúðinni og leigðum líka vél til að blása í blöðrur og settum blöðrubogann upp tveimur dögum fyrir afmæli. Fallegu ljósbleiku og hvítu kökudiskana fengum við í gjöf frá Hulunni en þessir diskar pössuðu alveg upp á 10 í þemað.

Á eyjunni í eldhúsinu voru síðan aðrar veitingar og allur matur. Elín Heiða hefur haldið fjölskyldu- og vinaafmæli með systur sinni undanfarin ár þar sem það er aðeins einn mánuður á milli afmæla hjá þeim. Þetta var hins vegar í síðasta sinn sem hún gerir það því nú er hún fermd og þá höfum við hætt að halda sérstök vina- og fjölskylduafmæli fyrir þær. Það eru því aðeins nokkur ár eftir með minnstu mús í slíku en eins og þið vitið þá taka oft annars konar afmæli við þegar börnin eldast. Þau vilja frekar gera eitthvað skemmtilegt með vinum sínum í skólanum og/eða íþróttunum og svo kannski bara fá ömmu og afa í kaffi.

Barbie kaka

Barbie kakan sjálf er Betty en ég baka alltaf eitt mix í Barbie-forminu sjálfu og síðan einn auka hringlaga botn sem er aðeins stærri en neðsti parturinn af Barbie-forminu. Síðan sker ég utan af og síkka þannig kjólinn, set svo gott lag af súkkulaði smjörkremi á milli og skreyti síðan að utan. Hérna smurði ég hvítu kremi með smá bleiku í marmaraáferð framan á kjólinn og sprautaði síðan bleiku smjörkremi með litlum stjörnustút á efri hlutann og notaði laufastút til að gera blúndur á allt pilsið á kjólnum. Skreytti síðan með sykurperlum og fjöðrum sem ég keypti í föndurdeildinni í A4 Kringlunni. Hulda valdi síðan sjálf eina af dúkkunum sínum og stóra systir fléttaði hana upp á nýtt.

Bollakökur með súkkulaði smjörkremi og Cheerioskökur eru alltaf vinsælar. Barbie kökuskiltin pantaði ég hjá Hlutprent eins og svo oft áður.

Hugmyndir fyrir barnaafmæli

Hér erum við með ísform sem ég dýfði í súkkulaðihjúp og skreytti með kökuskrauti, leyfði því síðan að storkna og fyllti samdægurs með candyfloss sem ég keypti í Tiger.

Hrísköku íspinnar

Hrísköku íspinna hef ég gert áður en ekki í þessum lit, þetta er í raun alveg sama aðferð og hér nema ég skipti dökku súkkulaði út fyrir hvítan súkkulaðihjúp!

Barnaafmæli hugmyndir

Sykurpúðar sem búið er að dýfa í hjúpsúkkulaði eru einföld og skemmtileg lausn á veisluborðið!

Við tímdum ekki að stinga afmæliskertunum í Barbie kökuna svo sex bollakökur fengu það hlutverk að vera kertahaldarar!

Partýdót fyrir afmæli

Við röðuðum saman hinu og þessu þegar kom að borðbúnaði, allt úr sitthvorri áttinni en í sömu litapallettu. Allur borðbúnaður, blöðrur, kerti og fleira er frá Partýbúðinni.

Sexuna keyptum við líka í Partýbúðinni og fylltum hana af litlum blöðrum í stíl við stóra bogann. Bæði blöðruboginn og sexan fengu síðan framhaldslíf hjá heppnum fylgjendum Gotterí og nutu sín í næstu veislu!

Kökur í afmæli

Elín Heiða bakaði afmæliskökuna sína sjálf en þetta er „Lukkukaka“ héðan af síðunni og hún er algjört dúndur.

Marengsbomba

Hún fékk líka eina pavlovu með körfuboltastelpu frá Hlutprent. Þessi er fyllt með rjóma, Snickers, Marssósu og hindberjum, namm!

Marengs uppskrift

Marengsbomba í skál er síðan alltaf klassík. Þessi hér er með rjóma, kókosbollum, Þristi, bláberjum og jarðarberjum.

Lemon í næstu veislu

Við vorum síðan með veislubakka, safa og ávexti frá Lemon í bland við aðrar veitingar.

Það er svo gott að hafa eitthvað hollt og ferskt í bland við allt þetta gúmelaði!

Ávextir fara alltaf vel í öllum veislum, það er bara þannig!

Einfalt og fallegt í afmæli

Hér sjáið þið turn með sætum bitum, allt keypt tilbúið í Fjarðarkaup og raðað fallega á bakka og sló heldur betur í gegn! Þetta sýnir að það þarf alls ekki að hafa mikið fyrir því að gera gómsætan eftirréttabakka.

Kleinuhringjastandar

Kleinuhringirnir eru seldir frosnir og eru fullkomnir í veislur, hvort sem það er að raða þeim í bland við annað á bakka eins og fyrir ofan eða hafa eina sér líkt og hér.

Mini pizzur í afmæli

Mini pizzur eru alltaf vinsælar og veit ég ekki hvað ég hitaði mörg stykki í þessu afmæli, hahahaha!

Kokteilpylsur í afmæli

Kokteilpylsur, tómatsósa og steiktur, klassík!

Smáréttir í afmæli

Þessi Satay kjúklingaspjót fást síðan í Fjarðarkaup og eru alveg svakalega góð!

Andlitsmálun í afmæli

Það eina sem Hulda bað um fyrir utan Barbie-köku var að fá konuna sem málar í framan. Það er auðvitað hún Ingunn hjá Andlitsmálun Ingunnar og hún er algjör töfrakona þegar kemur að andlitsmálun. Krakkarnir standa öll í röð og fylgjast með hverju meistaraverkinu á fætur öðru og bíða spennt eftir að það komi að sér. Mæli svoooooo mikið með!

Vonandi gefur þessi færsla ykkur skemmtilegar hugmyndir fyrir næsta barnaafmæli!

Ath! Hluti af aðföngum var í samstarfi/formi afsláttar fyrir þessa veislu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun